Innlent

Nýr borgar­stjóri kynntur á morgun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Líf, Helga, Dóra Björt, Heiða og Sanna eru að nálgast samkomulag. Greidd verða atkvæði um nýjan borgarstjóra síðdegis á morgun.
Líf, Helga, Dóra Björt, Heiða og Sanna eru að nálgast samkomulag. Greidd verða atkvæði um nýjan borgarstjóra síðdegis á morgun. Vísir/Vilhelm

Nýr borgarstjóri tekur við völdum í Reykjavík á morgun þegar greidd verða atkvæði um tillögu nýs meirihluta á aukafundi borgarstjórnar.

Fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn var frestað vegna viðræðna oddvita Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna, Sósíalista og Flokks fólksins. Oddvitarnir hafa hvorki gefið kost á viðtölum í gær eða í dag. Sigrún Einarsdóttir sem hefur séð um samskipti þeirra við fjölmiðla segir hópinn ekki verða til tals í dag enda sé hann enn að störfum.

„Þetta þýðir bara valdaskipti í borginni. Nýr meirihluti óskar eftir aukafundi,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Viðreisnar, í samtali við fréttastofu. Kjósa eigi í öll helstu ráð og nefndir.

„Smá breyting varðandi mannréttinda- og ofbeldisráð. Síðan á greinilega að setja af íbúaráðin,“segir Þórdís Lóa. Sjálf hefur hún ekki fengið neitt veður hvert verður borgarstjórnarefni nýs meirihluta; hvort það verði einn oddvitanna eða einhver utanaðkomandi.

Oddvitar flokkanna fimm sem eiga í meirihlutaviðræðum í Reykjavík gefa ekki kost á viðtölum í dag frekar en í gær. Er vísað til mikilla anna í viðræðum.

Fundurinn hefst klukkan 16:40 á morgun þar sem forseti borgarstjórnar verður kosinn, fjórir varaforsetar og svo í beinu framhaldi kosning borgarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×