„Ekki aftur flugslys, ég trúi því ekki,“ segir hin finnska Tuula Hyvarinen í nýjasta Útkallsþætti Óttars Sveinssonar og Heiðars Aðalbjörnssonar. Tveir læknar af Borgarspítalanum voru í þyrlunni.
Þáttinn má sjá hér:
Skerandi neyðar- og sársaukahróp á slysstað
Tuula var nýlega komin um borð í björgunarþyrlu varnarliðsins sem var að sækja hana og Mariu, vinkonu hennar, og Frakkann, flugmann Cessnunnar, eftir að þau höfðu brotlent illa og slasast ofarlega á Mosfellsheiðinni. Þegar þyrlan var komin í um 500 feta hæð hrapaði hún til jarðar.
Tveir íslenskir læknar af slysadeild Borgarspítalans, Magnús Guðmundsson og Ólafur Kjartansson höfðu komið með þyrlunni frá Reykjavík. Þeir lifðu báðir slysið af en slösuðust báðir.

Í þættinum er viðtal við Ólaf, sem þrátt fyrir meiðsl, fór að sinna hinum slösuðu á vettvangi – þar af þremur bandarískum þyrluflugmönnum sem höfðu lærbrotnað.
Einnig er viðtal við Ragnar Axelsson ljósmyndara sem var hræddur um að valda íkveikju á slysstað með flassljósi.

Þegar björgunarsveitarmenn komu að þyrlunni heyrðust þaðan skerandi neyðar- og sársaukahróp. Ofboðsleg eldsneytisgufa og neistaflug mætti þeim.
19 ára piltur, Skúli Karlsson, vann hetjudáð með því að bruna að þyrluflakinu á vélsleða áður en hann fór inn í það þar sem hann sló út aðalrofa. Með því er hann talinn hafa komið í veg fyrir að fjöldi fólks lét lífið.
