Innlent

VR greiddi Ragnari Þór rúmar tíu milljónir í bið­laun

Kjartan Kjartansson skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson, fyrrverandi formaður VR, á Alþingi.
Ragnar Þór Ingólfsson, fyrrverandi formaður VR, á Alþingi. Vísir/Vilhelm

Ragnar Þór Ingólfsson fékk greiddar rúmar tíu milljónir króna frá stéttarfélaginu VR í hálfs árs biðlaun eftir að hann lét af embætti formanns til þess að taka sæti á Alþingi í desember. Hann hefur fengið greidd laun fyrir þingsetu frá því í desember.

Biðlaun sem Ragnar Þór fékk greidd í eingreiðslu um síðustu mánaðamót voru rædd á stjórnarfundi VR síðdegis í gær. Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis segir félagið að fimm stjórnarmenn, þriðjungur stjórnarinnar, hafi óskað eftir að ræða fyrirkomulag biðlaunanna.

Ragnar Þór fór fyrst í tímabundið leyfið sem formaður VR í október eftir að hann fór í framboð fyrir Flokk fólksins fyrir Alþingiskosningarnar í haust. Tilkynnt var að hann kæmi ekki aftur til starfa í byrjun desember.

Í ráðningarsamningi sem stjórn VR gerði við Ragnar Þór árið 2017 var kveðið á um að hann ætti rétt á biðlaunum í sex mánuði eftir að hann léti af störfum. Laun hans í október 2024 voru 1,3 milljónir króna á mánuði en hann átti að auki inni orlof. Samtals fékk hann greiddar 10,2 milljónir króna í biðlaun auk orlofsins í eingreiðslu um síðustu mánaðamót.

VR segir að allir fyrrverandi formenn félagsins síðustu tvo áratugina hafi haft sama rétt til biðlauna samkvæmt ráðningarsamningi. Biðlaun formanna hafi ýmist verið greidd með eingreiðslu eða mánaðarlega. Ragnar Þór sé eini formaður félagsins sem hafi ákveðið að hverfa til annarra starfa áður en kjörtímabili hans lýkur síðustu tuttugu árin.

Fram hefur komið að nýkjörnir þingmenn byrjuðu að þiggja laun frá Alþingi í desember þrátt fyrir að þing hafi ekki komið saman fyrr en í byrjun febrúar. Ragnar Þór er með rúmar 1,6 milljónir króna á mánuði í laun sem þingmaður og formaður fjárlaganefndar Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×