Innlent

„Stjórn­mála­menn í Lazy Boy bíði þess að skatt­greið­endur sendi þeim peninga“

Jakob Bjarnar skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir og Áslaug Arna mættust í fyrsta sinn í kappræðum í aðdraganda formannsslagsins í Pallborðinu á Vísi.
Guðrún Hafsteinsdóttir og Áslaug Arna mættust í fyrsta sinn í kappræðum í aðdraganda formannsslagsins í Pallborðinu á Vísi. Vísir/vilhelm

Hvorki Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir né Guðrún Hafsteinsdóttir munu bjóða sig fram til varaformanns komi til þess að þær nái ekki því markmiði að verða formenn Sjálfstæðisflokksins.

Þetta kom meðal annars fram í ljómandi fjörugu Pallborði sem Vésteinn Örn Pétursson fréttamaður stýrði en þar var þeim tveimur teflt saman. Þær hafa farið um landið þvert og endilangt og heyrt ofan í flokksmenn og haldið framboðsfundi að undanförnu. Fyrir dyrum stendur Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, hann verður haldinn um komandi helgi en Bjarni Benediktsson formaður flokksins hefur lýst því yfir að hann sækist ekki eftir endurkjöri.

Í pallborðinu varð þeim báðum tíðrætt um að það þyrfti að endurstilla vélar flokksins, endurstilla Valhöll og ná til fleiri kjósenda en kusu flokkinn í síðustu alþingiskosningum. Þar er hann í sögulegu lágmarki með 19,4 prósenta fylgi og 14 þingmenn. 

Hvar eru kjósendur?

Áslaug Arna sagði að hún teldi að fólk ætti að vera stolt að tala fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins og Guðrún sagði forgangsverkefni nýs formanns að endurheimta borgina í sveitarstjórnarkosningum sem verða að rúmum fjórtán mánuðum liðnum.

Áslaug Arna sagði að þær væru nú í stjórnarandstöðu, sem væri vissulega ekki nokkuð sem Sjálfstæðisflokkurinn ætti að venjast en það væri kærkomið tækifæri til að herða á skrúfum. Guðrún sagði Íslandi alltaf farnast best ef Sjálfstæðisflokkurinn væri við völd. 

Áslaug Arna sagði það koma sér vel, það væri styrkur, að þekkja flokkinn inn að beini.vísir/vilhelm

Hún sagðist ekki reynd í pólitík, hún hafi aðeins verið þrjú ár á þingi en hún þekkti vel til í atvinnulífinu og henni hafi verið raun af því að sitja í málþófi, 63 þingmenn og tvö hundruð manns í vel launuðum störfum og ekkert kæmi af færibandinu. Áslaug Arna viðurkenndi fúslega að hún væri óreynd með að starfa fyrir aðra en flokkinn og hið opinbera en hún liti á það sem styrk að þekkja flokkinn inn að beini.

Báðar töldu þær báknið orðið of stórt, það skyti skökku við að opinberir starfsmenn væru í mörgum tilfellum komnir á hærri laun en gerist á almennum markaði, með miklu betri réttindi á meðan aldurspíramídinn væri að snúast á haus; það væru færri og færri sem vinna við að halda á floti ellilífeyrisþegum.

Styrkjamálið snúið fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Vésteinn Örn vék að styrkjamálinu svokallaða en Guðrún hefur sagt að hún teldi að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að endurgreiða hluta styrkjanna. Guðrún segist hafa fengið þessa spurningu áður og það hafi komið upp í lokin á viðtali sem hún var í hjá Stefáni Einari Stefánssyni í Spursmálum Morgunblaðsins.

„Um þetta vil ég bara segja eitt. Ef það er svoleiðis að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið meira greitt en hann á rétt á þá að sjálfsögðu endurgreiðir hann það. Mér finnst ekki að það eigi að þurfa að hafa fleiri orð um það.“

Guðrún sagði það að sjálfsögðu eiga að vera svo að ef Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki rétt á að fá styrki, þá ætti flokkurinn að endurgreiða þá.vísir/vilhelm

Guðrún sagði Vilhjálm Árnason ritari Sjálfstæðisflokksins hafa hafið frumkvæðisathugun á þessu máli í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hún hlakkaði til að sjá hvað kæmi út úr því.

Vésteinn Örn sagði Vilhjálm hafa lýst því yfir, í hádegisfréttum fréttastofunnar, að hann sé ósammála því sem Guðrún hefur fram að færa í þessum efnum en Guðrún segir það koma sér spánskt fyrir sjónir.

„Við viljum að þjóðin geti treyst því að þetta fyrirkomulag sé rétt og þeir flokkar sem fái féð fái það vegna þess að það eigi rétt á því.“

Mikilvægt að taka ekki undir rangan málflutning

Áslaug Arna sagði þau í þingflokknum hafi setið yfir þessu máli nokkra fundi og rætt það hver staða Sjálfstæðisflokksins er.

„Við komumst að þeirri niðurstöðu með lögfræðingum að við, ásamt þeim stjórnmálaflokkum sem skráðu sig 2022, hafi átt rétt á þessu fjármagni.“

Frumkvæðisathugun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar snúi að þeim flokkum sem ekki hafa skráð sig ár eftir ár eins og Flokkur fólksins er dæmi um.

„En það er mikilvægt að við tökum ekki undir rangan málflutning eða rógburð andstæðinga okkar eins og fjármálaráðherra er dæmi um. Hann reynir ítrekað að verja Flokk fólksins og spyrða við Sjálfstæðisflokkinn.“

Áslaug Arna segir mikilvægt að umræða um styrki til stjórnmálaflokkana væri vöknuð því þar væri pottur brotinn.vísir/vilhelm

Áslaug Arna segir mikilvægt að halda þessu fram því andstæðingar Sjálfstæðisflokksins vilji skilgreina hann. „En loksins er komin umræða um framlög til stjórnmálaflokka, og við Guðrún erum sammála um það.“

Sósíalistar á tvöföldum styrkjum

Guðrún sagði það aðra umræðu en hún væri hjartanlega sammála Áslaugu Örnu. „Þetta er ekki gott fyrirkomulag. Frá því þetta var tekið upp, 2010 hafa verið greiddir út 10,4 milljarðar til stjórnmálaflokka, jafnvel stjórnmálaflokka sem hafa ekki komið einni manneskju á þing. Sósíalistaflokka sem nú eru að reka sjónvarpsstöð og fá örugglega viðbótarstyrki frá ríkinu í gegnum Fjölmiðlastyrki.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir bjóða sig báðar fram til formanns Sjálfstæðisflokksins, Vésteinn Örn Pétursson fréttamaður stjórnaði umræðum í Pallborðinu og voru þær umræður afsakaplega fjögugar.vísir/vilhelm

Vésteinn Örn benti á að þarna væri Guðrún augljóslega að tala um Sósíalistaflokkinn.

„Ég er að tala um 10,5 milljarða. Það kostar rúma átta milljarða að reka Landhelgisgæsluna á einu ári og okkur vantar fé til þess.“

Guðrún sagði þetta fyrirkomulag fráleitt, líkt og það sem stjórnmálaflokkarnir búi við. „Nú lítur þetta út fyrir almenningi sem svo að þeir sitji bara í Lazy boy og bíði eftir því að skattgreiðendur sendi þeim peninga. Þetta getur ekki átt að vera svona.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×