Innlent

Lands­fundur Sjálf­stæðis­flokksins hefst í dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir sækjast eftir formannsembættinu.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir sækjast eftir formannsembættinu. Vísir/Vilhelm

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst í dag og stendur fram yfir helgi. Á fundinum verður nýr formaður kjörinn og nýr varaformaður.

Fundurinn fer fram í Laugardalshöll en á dagskránni í dag eru meðal annars fundir málefnanefnda og setningarræða Bjarna Benediktssonar, fráfarandi formanns, sem hefst klukkan 16.30.

Á morgun klukkan 10 hefjast kosningar í miðstjórn og stjórnir málefnanefnda en þær standa yfir til klukkan 11 á sunnudaginn. Ritari og framkvæmdastjóri flytja skýrslur fyrir hádegi og klukkan 11 hefst afgreiðsla ályktana í sal.

Klukkan 14.30 á morgun munu frambjóðendur til formanns, varaformanns og ritara flytja ræður sínar.

Kosningar til formanns, varaformanns og ritara fara fram klukkan 11.30 á sunnudag og eftir ræður formanna landssambanda flokksins eftir hádegi, verður afgreiðslu ályktana haldið áfram og stjórnmálaályktun sömuleiðis afgreidd.

Landsfundinum lýkur klukkan 17, með ávarpi nýs formanns.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir hafa tilkynnt um framboð til formanns og Diljá Mist Einarsdóttir og Jens Garðar Helgason um framboð til varaformanns.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×