Fótbolti

Draumainnkoma Dags

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagur Dan Þórhallsson skorar fjórða mark Orlando City gegn Toronto.
Dagur Dan Þórhallsson skorar fjórða mark Orlando City gegn Toronto. getty/Dustin Markland

Dagur Dan Þórhallsson átti sannkallaða draumainnkomu þegar Orlando City sigraði Toronto, 4-2, í MLS-deildinni í Bandaríkjunum í nótt. Dagur skoraði mínútu eftir að hann kom inn á sem varamaður.

Orlando komst í 3-0 í leiknum en Toronto minnkaði muninn í 3-1 á 72. mínútu. Dagur kom inn á sem varamaður á 80. mínútu og aðeins mínútu síðar kom hann heimaliðinu í 4-1.

Hann fékk þá sendingu inn fyrir vörn Toronto frá Luis Muriel, lagði boltann fyrir sig og skoraði með vinstri fótar skoti framhjá Sean Johnson, markverði gestanna.

Toronto minnkaði aftur muninn í tvö mörk skömmu síðar en sigur Orlando var ekki í hættu.

Þetta var fyrsti sigur Orlando á tímabilinu en liðið tapaði fyrir Philadelphia Union, 4-2, í 1. umferð MLS-deildarinnar. Næsti leikur Orlando er gegn New York City eftir viku.

Orlando komst í undanúrslit Austurdeildarinnar á síðasta tímabili en tapaði þar fyrir New York Red Bulls.

Dagur gekk í raðir Orlando frá Breiðabliki í ársbyrjun 2023. Hann hefur leikið 82 leiki fyrir fjólubláa liðið og skorað sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×