Enski boltinn

Segir það þjakandi og ein­mana­legt að vera hjá Man United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geyse hefur ekki staðið undir væntingum síðan hún kom til Manchester United árið 2023.
Geyse hefur ekki staðið undir væntingum síðan hún kom til Manchester United árið 2023. Getty/Ben Roberts

Framherji kvennaliðs Manchester United ber félaginu ekki góða söguna og hefur tjáð sig um slæma upplifun sína á samfélagsmiðlum.

Geyse kom til Manchester United frá Barelona fyrir metfé árið 2023 og það voru gerðar miklar væntingar til hennar. Hún hefur aðeins náð að skora 3 mörk í 39 leikjum í öllum keppnum fyrir enska félagið.

Luis Filipe Silva, umboðsmaður Geyse, sagði í viðtali við Telegraph að United hafi reynt að lána hana til bandarískra félaga á sama tíma og hún var í leyfi heima í Brasilíu vegna jarðarfarar bróður síns sem lést í janúar.

„Það er þjakandi og einmanalegt að þurfa að vera hjá félagi þar sem ég er ekki hamingjusöm,“ skrifaði Geyse í tilfinningaríkum pistli á samfélagsmiðlinum Instagram. Sky Sports hefur fjallað um þetta.

„Hver dagur er þyngri og erfiðari en sá sem fór á undan og það er þungbært fyrir mig að þurfa að vera þarna,“ skrifaði Geyse.

„Í stað þess að finnast vera velkomin þá er mjög óþægilegt að vera þarna og þá er mjög erfitt að finna innri frið. Þegar þú ert ekki í takt við þitt umhverfi þá missir heimurinn í kringum þig bæði lit og orku,“ skrifaði Geyse.

„Stundum kemur upp þrá eftir breytingu en óttinn við hið óþekkta og óöryggi um framtíðina getur hreinlega lamað þig. Það er samt mikilvægt að átta sig á því að hver einstaklingur á skilið að vera í umhverfi og aðstæðum sem færa okkur hamingju og sátt. Það er eina leiðin til að vaxa,“ skrifaði Geyse.

Félagssiptaglugginn í bandarísku deildinni lokar 24. mars næstkomandi en Manchester United þykir líklegt til að leyfa henni að fara á láni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×