Menning

Tjörnin trónir á toppnum

Jakob Bjarnar skrifar
Rán Flygenring er á toppnum með Tjörnina sína.
Rán Flygenring er á toppnum með Tjörnina sína. vísir/vilhelm

Rán Flygenring er í fyrsta sæti á toppi bóksölulistans með bók sína Tjörnina. En hún hlaut einmitt Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barnabóka.

„Jólabókaflóðið streymir enn um lendur íslenskra lestrarhesta því bækurnar sem vöktu hvað mesta athygli á aðventunni njóta enn vinsælda,“ segir Bryndís Loftsdóttir framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda.

Eins og áður sagði er Tjörnin fyrsta sæti metsölulista febrúarmánaðar, þetta rómað verk Ránar.

„Þessi hyldjúpa saga fjallar um mikilvægi þess að deila auðlindum náttúrunnar með öðrum. Stórmenni þessa heims gerðu ekkert af sér rétt á meðan þeir læsu um ævintýri Fífu og Spóa,“ útskýrir Bryndís.

Glæpasögurnar gera það gott eftir sem áður

Glæpasögurnar gefa ekkert eftir, þær hafa runnið vel niður með súrsuðu hrútspungunum því á listanum er líka að finna bækurnar Kóngurinn af Ósi: Kóngsríkið 2 eftir Norðmanninn Jo Nesbø, Ekki er allt sem sýnist eftir Svíann Stefan Ahnhem og Janusarsteininn eftir Bretann Elly Griffiths.

„Það er reyndar dulnefni konu að nafni Domenica de Rosa sem er svo miklu skáldlegra og dularfullra nafn. Svíinn Sofie Sarenbrant á tvær bækur á listanum, Blórabögguls og Skammarkróksins. Báðar fjalla þær um lögreglufulltrúann Emma Sköld sem velgir óþjóðalýð Stokkhólms undir uggum,“ segir Bryndís.

Mentor allra þessara glæpasagnahöfunda, gamla góða Agatha Christie, skreytir líka metsölulistann því þar situr Af hverju báðu þau ekki Evans? Sagan kom fyrst út árið 1934 og er því farin að nálgast aldarafmæli sitt en stutt er síðan gerðir voru prýðis sjónvarpsþættir eftir sögunni sem ýtt hafa undir hróðurinn.“

Ekkert lát á vinsældum Í skugga trjánna

Það sem er hugsanlega eftirtektarverðast er sú staðreynd að hrifingin á jólabókinni Í skugga trjánna eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur dalar ekkert. Þessi opinskáa sannsaga er í 2. sæti listans.

Ekkert lát er á vinsældum bókarinnar Í skugga trjánna eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.

„Síðan er feikigaman að sjá hvað nóbelsverðlaunahöfundinum Olga Tokarczu er vel tekið af bókmenntaunnendum því bók hennar Hús dags, hús nætur stekkur upp í 5. sæti metsölulistans. Hvílíkur fengur að geta lesið verk þessarar pólsku galdrakonu á íslensku en margir muna eflaust eftir meistarastykkinu Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu.“

Og Bryndís segir einnig mikinn feng að greinasafni Finnans Sofi Oksanen, Í sama strauminn: Stríð Pútíns gegn konum.

„Þeir sem áhuga hafa á heimsmálunum láta hana vitaskuld ekki framhjá sér fara. Oksanen fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Hreinsun árið 2010 og hefur notið mikla hylli allar götur síðan. Skógarhögg: Geðshræring eftir Hollendinginn Thomas Bernhard skýst líka inn á listann en alharðasta bókmenntaáhugafólki þess lands kom ekki dúr á auga af spennu þegar fréttist af því að von væri á bókinni í íslenskri þýðingu.“


Bóksölulistinn - febrúar 2025

1. Tjörnin - Rán Flygenring

2. Í skugga trjánna - kilja - Guðrún Eva Mínervudóttir

3. Kóngurinn af Ósi: Kóngsríkið 2 - Jo Nesbø, þýð. Bjarni Gunnarsson

4. Ekki er allt sem sýnist - Stefan Ahnhem, þýð. Elín Guðmundsdóttir

5. Hús dags, hús nætur - Olga Tokarczuk, þýð. Árni Óskarsson

6. Dauðinn einn var vitni - Stefán Máni

7. Janusarsteinninn - Elly Griffiths, þýð. Eyrún Edda Hjörleifsdóttir

8. Létt og loftsteikt í Air Fryer - Nathan Anthony, þýð. Nanna Rögnvaldardóttir

9. Börn í Reykjavík - Guðjón Friðriksson

10. Blóraböggull - Sofie Sarenbrant, þýð. Kristján H. Kristjánsson

11. Sorgarsugan - Heine Bakkeid, þýð. Magnús Þór Hafsteinsson

12. Skammarkrókurinn - Sofie Sarenbrant, þýð. Friðrika Benónýsdóttir

13. Lofaðu mér því - Jill Mansell, þýð. Snjólaug Bragadóttir

14. Af hverju báðu þau ekki Evans? - Agatha Christie,þýð. Jakob F. Ásgeirsson

15. Eyja - Katrine Engberg, þýð. Friðrika Benónýsdóttir

16. Í sama strauminn: Stríð Pútíns gegn konum - Sofi Oksanen, þýð. Erla Elías-Völudóttir

17. Litlir lærdómshestar - Stafir - Elisabeth Golding, þýð. Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

18. Skógarhögg: Geðshræring - Thomas Bernhard, þýð. Hjálmar Sveinsson

19. Móðurást: Draumþing - Kristín Ómarsdóttir

20. Horfin athygli - Johann Hari, þýð. Hugrún H. Kristjánsdóttir og Arnþór Jónsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.