Enski boltinn

Höjlund fékk ó­vænt hrós þrátt fyrir ní­tjánda marka­lausa leikinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rasmus Höjlund skoraði síðast fyrir Manchester United um miðjan desember. Hann þarf svo nauðsynlega á marki að halda.
Rasmus Höjlund skoraði síðast fyrir Manchester United um miðjan desember. Hann þarf svo nauðsynlega á marki að halda. AP/Miguel Oses

Danski framherjinn Rasmus Höjlund hefur verið hreinlega fyrirmunað að koma boltanum í netið á nýju ári. Höjlund byrjaði á móti Real Sociedad í Evrópudeildinni á fimmtudagskvöldið en tókst ekki að skora.

Þetta var nítján leikurinn í röð sem Höjlund tekst ekki að komast á blað.

Hann skoraði síðast á móti Viktoria Plzen um miðjan desember. Hann skoraði þá tvennu í röðum Evrópudeildarleiknum í röð.

Síðan eru liðnir 84 dagar og Höjlund er enn að bíða eftir næsta marki.

Hann hefur nú spilað tólf deildarleiki, fjóra bikarleiki og þrjá Evrópuleiki í röð án þess að skora.

Síðasta deildarmark Höjlund kom þannig á móti Nottingham Forest 7. desember á síðasta ári.

Stuðningsmenn Manchester United eru eflaust orðnir mjög pirraðir á Dananum og það kom örugglega mörgum þeirra á óvart að lesa umfjöllun um og hrós til Danans eftir leikinn.

Blaðamaður Daily Mail sá nefnilega ástæðu til að hrósa Dananum fyrir frammistöðuna í leiknum á Spáni.

„Þetta var einn af mest lofandi leikjum hans í marga mánuði. Hann átti mörg flott hlaup í þessum leik. Ruben Amorim verður að finna leið til þess að hann, fá þetta frjálsræði sem hann fær í Evrópu, líka í ensku úrvalsdeildinni,“ skrifaði blaðamaðurinn.

Tölfræðin er þó ekki alveg að segja sömu sögu. Höjlund spilaði í níutíu mínútur í leiknum og skapaði vissulega þrjú færi fyrir liðsfélagana. Hann kom nítján sinnum við boltann þar af þrisvar í vítateig spænska liðsins.

Hann átti samt ekki eitt einasta skot í þessum leik og var tvisvar dæmdur rangstæður. Höjlund tapaði líka sex af sjö samstuðum sem hann fór í þar af öllum þremur skallaeinvígunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×