Fótbolti

Sjáðu tvísparkið ör­laga­ríka í Madrídarslagnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Julián Alvarez var álitinn hafa snert boltann tvisvar þegar hann skoraði úr spyrnu sinni í vítakeppninni í leik Atlético Madrid og Real Madrid. Markið var dæmt af eftir skoðun á myndbandi.
Julián Alvarez var álitinn hafa snert boltann tvisvar þegar hann skoraði úr spyrnu sinni í vítakeppninni í leik Atlético Madrid og Real Madrid. Markið var dæmt af eftir skoðun á myndbandi. ap/Manu Fernandez

Real Madrid sló Atlético Madrid úr leik á dramatískan hátt í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Um fátt var meira rætt eftir leik en spyrnu Juliáns Alvarez í vítakeppninni.

Real Madrid vann fyrri leikinn, 2-1, en það tók Atlético aðeins 27 sekúndur að jafna í leiknum í gær. Conor Gallagher skoraði þá.

Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma né framlengingu og því réðust úrslitin í vítakeppni.

Skorað var úr fyrstu þremur spyrnunum í vítakeppninni. Alvarez steig næstur fram og skoraði þrátt fyrir að renna er hann spyrnti boltanum. 

Stuðningsmenn Atlético fögnuðu en ský dró fyrir sólu þegar Szymon Marciniak gaf til kynna að markið hefði verið dæmt af í VAR-herberginu þar sem Alvarez hefði snert boltann tvisvar þegar hann skaut að marki.

Real Madrid skoraði svo úr tveimur af næstu þremur spyrnum sínum og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Liðið getur því enn unnið keppnina í sextánda sinn.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá markið úr leik Atlético og Real sem og vítaspyrnuna sem Vinícius Júnior klúðraði í venjulegum leiktíma og vítakeppnina í heild sinni.

Klippa: Markið úr leik Atlético og Real Madrid og vítakeppnin



Fleiri fréttir

Sjá meira


×