Handbolti

Gísli fór mikinn í fyrsta leiknum eftir meiðsli

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gísli Þorgeir var frábær í fyrsta leiknum eftir meiðslin. 
Gísli Þorgeir var frábær í fyrsta leiknum eftir meiðslin.  Lars Baron//Getty Images

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm mörk og gaf fjórar stoðsendingar í endurkomu sinni úr meiðslum í 30-33 tapi Magdeburg gegn Füchse Berlin. Ómar Ingi Magnússon er einnig að stíga sín fyrstu skref aftur inn á völlinn eftir erfið meiðsli og tók þátt í leik kvöldsins, en komst ekki á blað.

Hvorki Gísli né Ómar tóku þátt í landsleikjum Íslands gegn Grikklandi á dögunum. Ómar hafði spilað smástund í leik gegn Potsdam rétt fyrir verkefnið en Gísli gat ekki tekið þátt í þeim leik.

Gísli fór mikinn í endurkomunni í kvöld en Ómar fer hægar af stað. Leikurinn var nokkuð spennandi, Gísli minnkaði muninn í eitt mark þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir, en gestirnir frá Berlín voru sterkari á lokastundum leiksins og fóru með þriggja marka sigur.

Magdeburg situr í sjötta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta, en hefur spilað tveimur til þremur leikjum færra en liðin fyrir ofan og gæti unnið sig upp í baráttuna um efstu fjögur sætin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×