Handbolti

Al­freð Gísla: „Skemmdar­verk á hand­boltanum“

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason vill sjá breytingar svo að lið geti ekki spilað með sjö sóknarmenn jafnauðveldlega og nú.
Alfreð Gíslason vill sjá breytingar svo að lið geti ekki spilað með sjö sóknarmenn jafnauðveldlega og nú. EPA-EFE/HENNING BAGGER

Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands, er harður á því að einni reglu verði að breyta sem fyrst í handboltanum.

Alfreð lýsir þessari skoðun sinni í viðtali í tímaritinu Handballwoche og er þar að tala um þá reglu að lið megi skipta út markverði til að fá aukamann í sókn. Svokallaða 7 á 6 reglu. Handbolti.is vakti athygli á þessu.

Alfreð segir regluna „hjálpa hinum svokölluðu minni þjóðum umtalsvert meira en stærri handboltaþjóðum. Ég hef aldrei séð stuðningsmann sjö manna sóknarleiks. Mér finnst þetta skemmdarverk á handboltanum,“ segir Alfreð.

Viss um að mikill meirihluti sé á móti reglunni

Það var árið 2016 sem að Alþjóða handknattleikssambandið ákvað að innleiða regluna og leyfa liðum að skipta út markverði fyrir aukaútileikmann, án þess að sá leikmaður þyrfti að vera auðkenndur með sérstöku vesti.

Alfreð vill losna við regluna hið snarasta:

„Svo sannarlega! Mér finnst þetta algjör synd fyrir handboltann. Ég er viss um að 80 prósent þjálfara eru á móti þessari reglu. Mér finnst sjö manna sóknarleikur leiðinlegur handbolti,“ segir hinn þrautreyndi Alfreð.

Kretzschmar á sama máli

Fleiri hafa lýst sömu skoðun og þar á meðal er Stefan Kretzschmar, fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands.

„Það sem angrar mig sérstaklega og fær mig til að biðla til handboltaheimsins er þetta: Losið ykkur við sjö-manna fyrirkomulagið,“ sagði Kretzschmar, sem nú er íþróttastjóri Füchse Berlín, í útsendingu Dyn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×