Viðskipti innlent

Sól­veig Ása nýr fram­kvæmda­stjóri Krafts

Atli Ísleifsson skrifar
Sólveig Ása B. Tryggvadóttir.
Sólveig Ása B. Tryggvadóttir.

Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur, hefur ráðið Sólveigu Ásu B. Tryggvadóttur sem framkvæmdastjóra félagsins.

Í tilkynningu segir að hún hafi tekið við starfinu í gær. 

„Sólveig Ása kemur inn með fjölbreytta reynslu og djúpan skilning á málefnum félagsins.

Sólveig Ása hefur sex ára reynslu sem framkvæmdastjóri AFS á Íslandi, þar sem hún stóð fyrir stefnumótun og víðtækri uppbyggingu samtakanna. Hún er með Executive MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Þekking Sólveigar Ásu á starfsemi félagasamtaka eins og Krafts er ekki einungis fagleg – hún hefur einnig persónulega reynslu af baráttu við krabbamein,“ segir í tilkynningunni.

„Þessi reynsla hefur gefið mér einstaka innsýn í það hversu mikilvægur Kraftur er fyrir ungt fólk og aðstandendur. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til að styrkja starf félagsins og tryggja áframhaldandi velgengni þess,“ er haft eftir Sólveigu Ásu.

Sem framkvæmdastjóri mun Sólveig Ása bera ábyrgð á daglegum rekstri Krafts, stefnumótun, fjárhagsstjórn og hagsmunagæslu fyrir félagsmenn. Hennar markmið er að styrkja innra starf, auka sýnileika samtakanna og efla tengslanet svo Kraftur geti veitt enn öflugri þjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×