Enski boltinn

Amorim: Klikkun að halda að Man United geti unnið ensku úrvalsdeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim, þjálfari Manchester United, ræðir við fyrirliðann Bruno Fernandes í leikmannagöngunum á Old Trafford.
Ruben Amorim, þjálfari Manchester United, ræðir við fyrirliðann Bruno Fernandes í leikmannagöngunum á Old Trafford. Getty/Jan Kruger

Ruben Amorim, þjálfari Manchester United, segir það út í hött að halda því fram að liðið hans geti orðið enskur meistari á næstu leiktíð.

Amorim gekk svo langt að það væri klikkun að halda slíku fram.

Manchester United hefur ekki orðið enskur meistari í tólf ár en mætir um helgina Manchester City sem hefur unnið sex meistaratitla á síðustu sjö árum.

„Við erum að gera fullt af hlutum, setja inn ákveðin gildi og stundum þurfum við að skipta út leikmönnum til að aðlagast betur þessum nýju gildum okkar,“ sagði Ruben Amorim á blaðamannafundi fyrir leikinn við City um helgina.

Manchester United er 36 stigum á eftir toppliði Liverpool.

„Ég veit vel að það er erfitt að ná þessu á aðeins einu ári. Ég er ekki að segja að við vinnum titilinn á næsta tímabili. Ég er ekki það klikkaður,“ sagði Amorim.

„Við erum að þjást mikið þessa dagana til þess að gera orðið miklu betri á næsta ári. Það er okkar markmið,“ sagði Amorim.

United hefur sett sér það markmið að vinna aftur enska meistaratitilinn á tímabilinu 2027-28 eða eftir þrjú ár. Amorim talaði um að það sé samt vissulega pressa á honum að ná árangri sem fyrst.

„Ég veit að við verðum ekki eitt af aðalliðunum í titilbaráttunni á næstu tveimur árum. Ég veit að við þurfum að gera það mikið. Við erum samt að flýta okkur. Ég vil ekki að það taki okkur mörg ár að verða samkeppnishæfir. Ég get ekki hugsað mér það,“ sagði Amorim.

„Við erum á þeim stað í dag að það þarf mikið til að ná liðum eins og Manchester City. City mun líka verða betra lið á næstu leiktíð,“ sagði Amorim.

„Ég reyni bara að einblína á okkar styrkleika og reyna svo að nota okkar félag til að ná í einn eða tvo stóra leikmenn. Stundum hef ég samt aðra skoðun á því en þið hvað sé stór leikmaður,“ sagði Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×