BH varð þá Íslandsmeistari kvenna í liðakeppni í efstu deild. KR eða Víkingur höfðu unnið alla titlana í liðakeppni kvenna undanfarin 35 ár og þetta var því sögulegur sigur.
BH vann Víking 3-1 í úrslitaleiknum. Stelpurnar í BH eru því bæði deildar- og Íslandsmeistarar kvenna í ár.
Lið BH var skipað þeim Sól Kristínardóttir Mixa, Agnesi Brynjarsdóttur og Vivian Huynh. Lið Víkings var skipað Lilju Rós Jóhannesdóttur, Halldóru Ólafs og Nevenu Tasic.
Víkingar urðu Íslandsmeistarar í liðakeppni karla í efstu deild. Úrslitaleikurinn á móti BH var æsispennandi og úrslit réðust í oddaviðureign þar sem Víkingar stóðu uppi sem sigurvegarar.
Víkingar unnu þar með Íslandsmeistaratitil karla annað árið í röð. Það var alþjóðlegur bragur á liðunum í dag og Víkingar voru með alþjóðlegasta liðið til að verða Íslandsmeistarar karla í borðtennis frá upphafi. Lið Íslandsmeistara Víkings var skipað Inga Darvis, Alexander Fransson Klerck og Carl Sahle.
Lið BH var skipað Matthias Sandholt, Birgi Ívarssyni, og Magnúsi Gauta Úlfarssyni.