Barcelona með annan fótinn í undan­úr­slitum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamine Yamal og Raphinha fagna saman fjórða marki Barcelona liðsins í kvöld.
Lamine Yamal og Raphinha fagna saman fjórða marki Barcelona liðsins í kvöld. Getty/Pedro Salado

Barcelona er í frábærum málum eftir 4-0 sigur á Borussia Dortmund í kvöld í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Robert Lewandowski var þarna að mæta sínum gömlu félögum og hann skoraði tvö mörk fyrir Katalóníuliðið í kvöld. Raphinha stal einu marki sjálfur og lagði önnur tvö upp.

Dortmund réði annars lítið við spræka Börsunga í þessum leik og seinni leikurinn í Þýskalandi er því nánast formsatriði.

Raphinha kom Barcelona yfir á 25. mínútu en hann stal þá marki miðvarðarins Pau Cubarsi á marklínunni. Raphinha var heppinn að vera ekki rangstæður en hann ýtti boltanum yfir línuna þegar hann var á leið í markið eftir skot Cubarsi.

Lewandowski skoraði annað markið á 48. mínútu eftir að Raphinha skallaði sendingu Lamine Yamal fyrir markið og Lewandowski skoraði af stuttu færi.

Lewandowski bætti síðan við sínu öðru marki á 66. mínútu eftir stoðsendingu frá Fermin Lopez.

Vont varð síðan enn verra fyrir þýska liðið þegar táningurinn Lamine Yamal skoraði fjórða markið á 77. mínútu eftir stoðsendingu frá Raphinha.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira