Íslenski boltinn

„Ég skil ekki hvernig við náum ekki að klára þetta“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Oliver Heiðarsson í leik með ÍBV.
Oliver Heiðarsson í leik með ÍBV. Vísir/Anton Brink

Afturelding og ÍBV gerðu 0-0 jafntefli í nýliðaslag í Bestu deild karla í dag. Bæði lið fengu færi til að tryggja sér sigurinn og Oliver Heiðarsson framherji Eyjamanna var svekktur með niðurstöðuna eftir leik.

„Ég skil ekki hvernig við náum ekki að klára þennan leik almennilega. Ég fæ gott færi í fyrri hálfleik sem ég átti að klára og svo fáum við bara fullt af dauðafærum og mjög svekkjandi að ná ekki að setja boltann í netið,“ sagði Oliver eftir leik. 

ÍBV tapaði 2-0 fyrir Víkingum í fyrsta leik þar sem liðið sýndi litla sóknartilburði og sköpuðu lítið jafnvel þó Víkingar væru orðnir einum færri. Færin komu hins vegar í dag.

„Við héldum áfram með varnarleikinn, stóðum okkur vel varnarlega fannst mér. Að koma okkur í færi er erfiðast að gera og svo þarf að klára. Það er gott að fá allavega færin en svekkjandi að klára þau ekki.“

ÍBV hefur leikið fyrstu tvo leiki sína í Bestu deildinni á útivelli þar sem verið er að leggja gervigras á Hásteinsvöll í Eyjum. Næsti leikur þeirra í deildinni verður í Eyjum þegar Fram kemur í heimsókn.

„Það á alltaf að vera erfitt að koma til Eyja og mæta okkur. Það er stefnan að láta menn finna fyrir því þegar þeir koma til Eyja,“ sagði Oliver að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×