Erlent

Ísraels­her réðst á sjúkra­hús

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Sjúkrahúsið er ónothæft eftir árásina.
Sjúkrahúsið er ónothæft eftir árásina. AP

Ísraelsher gerði árás á sjúkrahús á Gasaströndinni og er það nú ónothæft. Enginn lést í árásinni en hundruðir sjúklinga og særðra þurftu að flýja um miðja nótt.

Ísraelski herinn sendi tvö flugskeyti á stórt sjúkrahús á Gasaströndinni fyrr í dag. Sjúkrahúsið, sem rekið er af anglíkönsku kirkjunni, er ónothæft eftir árásina.

Markmið árásarinnar, samkvæmt ísraelska hernum, var að ná Hamas-liðum sem væru að nýta sér stofnunina til að skipuleggja árásir. Hamas hefur hafnað staðhæfingu Ísraelshers og kalla eftir alþjóðlegri rannsókn samkvæmt umfjöllun Reuters.

Ísraelsher sagði einnig að þeir hefðu reynt að koma í veg fyrir að óbreyttir borgarar myndu hljóta skaða af árásinni. Heilbrigðisstarfsmenn fengu viðvörun um árásina frá manni sem sagðist vera ísraelskur öryggisvörður stuttu fyrir árásina. Því tókst þeim að flýja bygginguna og koma sjúklingunum út. 

„Hundruð sjúklinga og særðra þurftu að flýja um miðja nótt og margir þeirra eru núna úti á götu án læknisaðstoðar, sem setur líf þeirra í hættu,“ sagði Khalil Al-Deqran, talsmaður heilbrigðisráðuneytis Hamas.

Hamas-liðar segir Ísraela vera reyna eyðileggja heilbrigðiskerfið á Gasa með sífelldum árásum.

Árásin kemur degi eftir yfirlýsingu varnarmálaráðherra Ísraels um að ísraelski herinn stefni á „öfluga“ yfirtöku á allri Gasaströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×