Fótbolti

Vita af hverju rangt lag var spilað fyrir leikinn á Villa Park

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmönnum Aston Villa og Paris Saint-Germain brá í brún þegar þeir heyrðu Evrópudeildarlagið fyrir leik liðanna í gær.
Leikmönnum Aston Villa og Paris Saint-Germain brá í brún þegar þeir heyrðu Evrópudeildarlagið fyrir leik liðanna í gær. getty/Xavier Laine

Kerfisbilun varð til þess að Evrópudeildarlagið var spilað fyrir leik Aston Villa og Paris Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu í gær.

Mörgum brá í brún þegar Evrópudeildarlagið var leikið þegar leikmenn stilltu sér upp fyrir leikinn í gær. Leikmenn Villa og PSG voru eitt spurningarmerki í framan þegar þeir heyrðu Evrópudeildarlagið en ekki hið þekkta Meistaradeildarlag og horfðu undrandi á hvorn annan.

Nú er komið í ljós að vegna kerfisbilunar var vitlaust lag spilað fyrir leikinn á Villa Park í gær. Eitt kerfi hrundi og annað tók yfir með þeim afleiðingum að Evrópudeildarlagið fór í loftið.

UEFA sér félögum fyrir lögum sem á að spila fyrir leiki en það er síðan undir þeim komið að spila þau. Í reglum UEFA er hins vegar ekkert um rangt lagaval og því sleppur Villa væntanlega við refsingu.

PSG var með tveggja marka forskot fyrir leikinn í gær eftir að hafa unnið fyrri leikinn á Parc des Princes í síðustu viku, 3-1. Frönsku meistararnir komust í 0-2 í leiknum á Villa Park en enska liðið kom til baka, komst í 3-2 og fékk tækifæri til að skora fjórða markið. Þá hefði þurft að framlengja leikinn.

PSG vann einvígið, 5-4 samanlagt, og mætir annað hvort Arsenal eða Real Madrid í undanúrslitunum í næsta mánuði.

Næsti leikur Villa er gegn Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Villa er í 7. sæti með 54 stig, aðeins einu stigi á eftir Manchester City sem er í 5. sætinu. Efstu fimm lið ensku úrvalsdeildarinnar komast í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×