Innlent

Á­formin dragi veru­lega úr mögu­leikum til úti­vistar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Heiðmörk er afar vinsælt útivsitarsvæði.
Heiðmörk er afar vinsælt útivsitarsvæði. Vísir/Vilhelm

Formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur lýsir áhyggjum af fyrirætlunum Veitna um að loka fyrir bílaumferð um Heiðmörk. Vel sé hægt að tryggja vatsnvernd án þess að skikka útivsitarfólk til margra kílómetra göngu.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að Veitur stefndu að því að takmarka umferð einkabíla um Heiðmörk. Umferð yrði stýrt á bílastæði við ytri mörk svæðisins, þar sem yrði aðgengi að göngu- og hlaupaleiðum.

Dragi úr möguleikum til útivistar

Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, lýsir áhyggjum af því að þetta verði niðurstaðan.

„Það mun auðvitað draga verulega úr möguleikum borgarbúa á að heimsækja þetta stærsta útivistarsvæði Reykvíkinga,“ segir Jóhannes.

Jóhannes Benediktsson, annar frá hægri, er formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.Reykjavíkurborg

Með því að skilyrða útivist á svæðinu við nokkurra kílómetra göngu frá bílastæðum á jaðri Heiðmerkur muni aðsókn minnka um tugi prósenta.

„Í dag erum við að reikna með að það séu í kringum fjögur til fimm hundruð þúsund manns sem komi í Heiðmörkina, þannig að þetta mun hafa gríðarleg áhrif á möguleika borgarbúa til að stunda útivist.“

Margt annað hægt að gera til að tryggja öryggi

Rök Veitna fyrir takmörkunum á bílaumferð séu að tryggja þurfi vatnsvernd í Heiðmörk og forðast óhöpp þar að lútandi. Jóhannes gefur lítið fyrir það.

„Við höfum verið þarna í 75 ár og það hefur aldrei gerst fram til þessa að óhapp hafi orðið sem hefur áhrif á vatnsgæðin.“

Skógræktarfélagið hafi lagt fram tillögur til að bæta öryggi, án þess að hefta umferð með þessum hætti.

„Það mætti alveg skoða að það mætti loka Heiðmörkinni að nóttu til. Það eru hvergi hraðatakmarkanir á veginum, það mætti setja það upp, og kannski hraðahindranir og einhverjar eftirlitsmyndavélar líka,“ segir Jóhannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×