Íslenski boltinn

Stuðnings­menn Vestra úti í horni vegna kröfu um að­skilnað

Sindri Sverrisson skrifar
Það var nóg pláss fyrir stuðningsmenn Vestra á leik gegn Fram í Úlfarsárdal á síðustu leiktíð, þegar þessi mynd var tekin. Þá, líkt og í gær, fögnuðu Vestramenn sigri.
Það var nóg pláss fyrir stuðningsmenn Vestra á leik gegn Fram í Úlfarsárdal á síðustu leiktíð, þegar þessi mynd var tekin. Þá, líkt og í gær, fögnuðu Vestramenn sigri. vísir/Viktor Freyr

Þó að stuðningsmenn Vestra hafi getað fagnað góðum sigri gegn ÍA í gær þá er ekki hægt að segja að það hafi farið vel um þá í Akraneshöllinni. Ekki frekar en þann hluta stuðningsmanna ÍA sem ekki fengu sæti í stúkunni.

Halldór Jónsson, Vestfirðingur sem búsettur er á Akranesi, vakti athygli á þessu á Facebook og birti mynd sem sýnir stuðningsmenn Vestra úti í horni Akraneshallarinnar. Gerðir hornreka í orðsins fyllstu merkingu, eins og Halldór orðar það og segir framkomuna við gestina dapurlega.

Stuðningsmenn ÍA fylltu þá litlu stúku sem er í höllinni, sem tekur aðeins um 350 manns, og voru svo einnig í öðru horni hallarinnar, í sams konar aðstöðu og stuðningsmenn Vestra sem fannst þó broslegt að sjá að aðeins heimafólk fengi sæti í stúkunni.

Hús sem er ekki byggt fyrir svona leiki

Það að stuðningsmenn Vestra hafi ekki fengið sæti í stúkunni á sér hins vegar sínar skýringar eins og Eggert Herbertsson, formaður Knattspyrnufélags ÍA, útskýrði í samtali við Vísi:

„Það eru kröfur frá KSÍ um aðskilnað stuðningsmanna og þetta var eini mögulegi aðskilnaðurinn inni í þessari höll. Ekki nema menn hefðu viljað að stuðningsmenn ÍA væru allir þarna og þessir tuttugu og eitthvað stuðningsmenn Vestra sem komu hefðu verið í stúkunni. Hefði það meikað sens? Nei.

Við vorum ekki í góðri aðstöðu. Við erum með hús sem er ekki byggt fyrir svona og erum að reyna að gera það besta úr því. Það voru stuðningsmenn ÍA sem sátu í alveg eins sætum hinum megin,“ sagði Eggert.

Hann sagði vonir bundnar við það að ekki yrðu fleiri leikir spilaðir í Akraneshöllinni á leiktíðinni. Næsti heimaleikur ÍA, við KA 4. maí, ætti því að geta farið fram á grasinu á ELKEM-vellinum.


Tengdar fréttir

Uppgjörið: ÍA - Vestri 0-2 | Taplausir Vestramenn sóttu sigur á Skagann

Vestri sótti 0-2 sigur gegn ÍA í Akraneshöllinni og er því enn ósigrað eftir þrjár umferðir. Daði Berg Jónsson og Diego Montiel skiptust á að skora og leggja upp fyrir gestina í fyrri hálfleik, Skagamönnum tókst síðan illa að skapa sér færi í seinni hálfleik gegn vel skipulagðri vörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×