Upp­gjörið: Haukar - Fram 25-24 | Orku­frekur eltinga­leikur

Valur Páll Eiríksson skrifar
Elín Klara réði úrslitum í kvöld og fiskaði víti á svipaðan máta og hér, sem hún skoraði sjálf úr í lok leiks.
Elín Klara réði úrslitum í kvöld og fiskaði víti á svipaðan máta og hér, sem hún skoraði sjálf úr í lok leiks. vísir/Hulda Margrét

Haukar unnu 25-24 sigur á Fram í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís-deild kvenna í handbolta að Ásvöllum í kvöld. Liðið leiðir einvígið því 2-0.

Leikur kvöldsins var jafn frá upphafi. Ljóst var að Framkonur vildu svara fyrir óvænt stórtap í fyrsta leik einvígisins, sem fór 30-18 fyrir Hauka, og var öllum ljóst að annað rúst væri ekki á teningunum.

Liðin skiptust á forystunni í fyrri hálfleik og báðar varnir öflugar. Það virtist sem minnstu mistök hvoru megin vallar sem var myndu ráða úrslitum.

Í byrjun síðari hálfleiks klikkaði Fram á víti auk þess að setja boltann þrisvar í tréverkið á meðan Haukar skoruðu hinu megin. Haukar skoruðu fyrstu fjögur mörk hálfleiksins og náðu fimm marka forystu.

Forystuna létu Haukar aldrei af hendi í kjölfarið. Fram átti áhlaup og minnkaði oftar en einu sinni í eitt mark en tókst aldrei að brúa bilið til fulls. Hefði Fram náð að jafna hefur maður á tilfinningunni að allt hafi getað gerst en Haukakonur voru með sterkari haus sem réði úrslitum í kvöld.

Það var sannarlega kominn grunnur að brú Framara, eftir stórtapið í síðasta leik, og allt annað að sjá til liðsins. En að ná ekki þessu eina marki enn til að jafna var kostnaðarsamt. Fram var í stanslausum eltingaleik en það er orkufrekt og erfitt þegar ekki tekst að klukka andstæðinginn með jöfnunarmarki.

Elín Klara Þorkelsdóttir átti enn einn stórleikinn fyrir Hauka og oftar en ekki var það hún sem steig upp þegar sóknarleikurinn var kominn í þrot.

Eitt slíkt skipti var undir blálok leiks þegar hún fiskaði vítakast, steinlá eftir en reif sig meidd á lappir, að drepast í bakinu en skoraði 25. mark Hauka sem dugði fyrir sigri. Mark Ölfu Hagalín í kjölfarið lítið annað en sárabót og 25-24 sigur Hauka staðreynd.

Haukar leiða einvígið því 2-0 og Fram með bakið upp við vegg fyrir þriðja leik liðanna í Úlfarsárdal á föstudagskvöldið kemur.

Stefán: Elskum alheiminn svo við leyfum henni að fara

Stefán arnarsonVísir/Anton Brink

„Ég er ótrúlega ánægður að vinna. Fram er mjög gott lið og við vissum að þessi leikur yrði jafn. Það er ótrúlega gott að vera komnir í 2-0,“ segir Stefán Arnarson, þjálfari Hauka.

Hann hrósar Framliðinu sem gerði Haukum erfitt fyrir á stórum köflum.

„Fram er náttúrulega með frábært varnarlið, það er erfitt að skora á þær. Margir góðir leikmenn og erfitt að slá Fram út, það sýndi þessi leikur. Ég held að þriðji leikurinn verði jafnvel erfiðari,“ segir Stefán.

Kaflinn í byrjun síðari hálfleiks hafi skipt sköpum, þar sem Haukar náðu góðri forystu.

„Við komumst þarna fjórum yfir en þær minnka í tvö. Þær ná ekki að minnka í eitt fyrr en í lokin, þessi kafli í byrjun seinni hálfleik hjálpaði okkur að landa þessu,“ segir Stefán.

Elín Klara var þá leikmaðurinn sem leysti Hauka úr snörunni ef sóknarleikurinn fór í þrot. Hún skipti sköpum í kvöld, eins og svo oft áður, en Stefán segir þá ástæðu til að fleiri fái að njóta hæfileika hennar er hún heldur utan í sumar.

„Frábært að hafa svona leikmann. Við bara elskum alheiminn svo við leyfum henni að fara til Svíþjóðar á næsta ári svo fleiri fái að njóta hennar,“ segir Stefán.

Arnar: Þarf bara að fara með það á koddann

Arnar Pétursson, þjálfar kvennalandslið Íslands, samhliða skyldum hans hjá Fram.Vísir/Viktor Freyr

„Mér líður ekki vel. Það er augljóst. Þetta var hörkuleikur. En við erum að spila við mjög gott lið og mér fannst við heilt yfir gera þetta vel í dag. Þessi kafli í byrjun seinni er erfiður, þrjú skot í stöng og klúðrum víti. Eftir það erum við að elta,“ segir Arnar Pétursson, annar þjálfara Fram, og endurspeglar einnig það sem Stefán kollegi hans sagði. Kaflinn í byrjun síðari hálfleik var dýrkeyptur fyrir þær bláklæddu.

Þá var orkufrekt fyrir Fram að vera í stanslausum eltingaleik.

„Það er það klárlega. Ég var kominn með fingurinn á hnappinn þarna en við fengum ágætis færi. En mikið hrós á stelpurnar að koma til baka eftir en mér fannst við búnar að loka vel á þær í 6-0, það var smá spurningamerki hjá mér hvort við hefðum átt að skipta í 5-1 en ég þarf bara að fara með það á koddann,“ segir Arnar.

Tilkynnt var í dag að Rakel Dögg Bragadóttir, sem þjálfar Fram ásamt Arnari, stígi til hliðar eftir tímabilið og Haraldur Þorvarðarson taki við. Hafði það áhrif á undirbúning að þessi tilkynning kæmi fram á leikdegi?

„Það hefur ekki áhrif. Við látum ekki svona utanaðkomandi hluti trufla okkur. Svo er það líka utanaðkomandi þessum leik og það sem fer af stað eftir að þessu tímabili lýkur. Við ætlum að klára þetta tímabil fyrst,“ segir Arnar.

Þá kemur ekkert til greina annað en sigur í næsta leik, enda tímabili Fram lokið ef sá tapast.

„Það er það sem við ætlum okkur. Við recoverum vel núna en það var margt sem við gerðum vel í þessum leik og svo gerum við enn betur á föstudaginn.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira