Innlent

Lítur það grafalvarlegum augum ef ráð­herra fari ekki að lögum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Inga Sæland segist tilbúin að leiðrétta ákvarðanir sínar fari þær ekki að lögum.
Inga Sæland segist tilbúin að leiðrétta ákvarðanir sínar fari þær ekki að lögum. Vísir/Vilhelm

Inga Sæland húsnæðismálaráðherra segist líta það alvarlegum augum hafi hún ekki farið að lögum við skipun á nýrri stjórn Húsnæðis og mannvirkjastofnunnar. Hún muni leiðrétta ákvarðanir sínar fari þær ekki eftir lögum.

Skipun Ingu í stjórn HMS hefur vakið athygli en þar var stjórn stofnunnarinnar skipt út. Jafnréttisstofa hefur gert athugasemd við skipunina og telur hana stangast á við jafnréttislög og Verkfræðingafélags Íslands hefur einnig gert athugasemdir en það er mat félagsins að stjórnarmenn skorti fagþekkingu.

„Ég lít grafalvarlegum augum þau vinnubrögð ráðherra að fara ekki að lögum. Þannig ef svo er, þetta er núna í skoðun í mínu ráðuneyti, þá verður það svo sannarlega leiðrétt. Það er ekki neinum blöðum um það að fletta,“ sagði Inga að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

„Ef við þurfum að leiðrétta eitthvað til að fara að lögum þá auðvitað gerum við það. Því við viljum alltaf fara að lögum. Við ætlumst til þess að landsmenn geri það og við viljum gera það líka.“

Í síðustu viku var Inga spurð út í skipunina og þá sagðist hún stolt af henni.

„Í tilviki skipunar stjórnar HMS nýverið skipaði ég þá aðila sem ég taldi hæfasta til að fylgja þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur í húsnæðismálum. Nefndin er pólitískt skipuð enda eru verkefni stjórnarinnar af pólitískum toga, það er, að fylgja eftir húsnæðisstefnu ríkisstjórnarinnar,“ sagði Inga í ræðustól Alþingis.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær sagðist Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra treysta Ingu til að meta hæfi þeirra einstaklinga sem hún hefur skipað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×