Erlent

Gamlar nektar­myndir felldu glæ­nýjan þjóðaröryggis­ráðgjafa Sví­þjóðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Tobias Thyberg sagði af sér aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann var skipaður þjóðaröryggisráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar.
Tobias Thyberg sagði af sér aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann var skipaður þjóðaröryggisráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar. Vísir/Getty

Nýskipaður þjóðaröryggisráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar steig til hliðar sama dag og hann var skipaður eftir að gamlar nektarmyndir af honum af stefnumótasíðu skutu upp kollinum. Forsætisráðherrann segir málið alvarlegt.

Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Tobias Thyberg var skipaður þjóðaröryggisráðgjafi sænsku stjórnarinnar í gær fékk stjórnarráðið nafnlausan póst með nektarmyndum af honum af stefnumótasíðu. Sænska ríkisútvarpið segir að myndirnar séu sex til sjö ára gamlar.

Thyberg átti að ferðast með Ulf Kristersson, forsætisráðherra, á fund með evrópskum leiðtogum um varnarmál í Osló í dag. Hætt var við það eftir að sænsk dagblað spurðist fyrir um myndirnar. 

Sænska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni Kristersson að algerlega nýjar persónuupplýsingar um Thyberg hefðu borist skömmu eftir að hann var skipaður þjóðaröryggisráðgjafi. Stjórnarráðið hefði ekki haft upplýsingar um myndirnar.

Sérfræðingar telja að myndirnar hefðu gert Thyberg útsettan fyrir kúgunum. Kristersson forsætisráðherra segist harma uppákomuna.

„Að leyna upplýsingar hefðu haft mikla þýðingu fyrir öryggisheimild er mjög alvarlegt, eins og allir geta skilið,“ sagði forsætisráðherrann.

Thyberg sjálfur viðurkennir að hann hefði átt að upplýsa um myndirnar en það hafi hann hins vegar ekki gert. Myndirnar komu af stefnumótaforritinu Grindr sem er sérstaklega vinsælt á meðal samkynhneigðra karla.

„Ég hef því tilkynnt að ég ætli mér ekki að þiggja stöðu þjóðaröryggisráðgjafa,“ sagði hann.

Málið er ekki síst vandræðalegt fyrir sænsku ríkisstjórnina því forveri Thyberg í stöðu þjóðaröryggisráðgjafa þurfti að hætta vegna hneykslismála. Hann er nú ákærður fyrir vanrækslu í meðferð ríkisleyndarmála en hann neitar sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×