Innlent

Ók fullur á nokkra kyrr­stæða bíla

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Ellefu gistu í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Ellefu gistu í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Samúel Karl

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust fjölmargar tilkynningar í gærkvöldi vegna ökumanns sem hafði ekið á nokkra kyrrstæða bíla og ekið síðan á brott. Bíllinn fannst eftir stutta leit og ökumaður reyndist ölvaður. Hann var handtekinn og vistaður á stöð í þágu rannsóknar málsins.

Frá þessu er greint í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en umrætt atvik er skráð á lögreglustöð 2 sem sér um Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes.

Þá var kallað eftir aðstoð vegna elds utandyra við fjölbýlishús. Kviknað hafði í gasgrilli.

„Rýma þurfti húsnæðið í stutta stund meðan slökkvilið var við störf. Nokkuð eignatjón varð vegna brunans.“

Lögregla var einnig send til aðstoðar við dyraverði vegna manns sem hafði veist að þeim. Aðilinn var í tökum dyravarða þegar lögreglu bar að garði, og var maðurinn handtekinn og fluttur á stöð.

Nokkrir voru handteknir grunaðir um ölvun við akstur, og var einn þeirra valdur að umferðaróhappi í miðbæ Reykjavíkur.

Einn þeirra sem handteknir voru vegna gruns um ölvunarakstur reyndi að hlaupa frá lögreglu en hafði ekki erindi sem erfiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×