Íslenski boltinn

Skemmti­krafturinn spilar ekki meira fyrir nýliðana

Sindri Sverrisson skrifar
Tímabilið reyndist stutt hjá Aidu Kardovic sem er með slitið krossband í hné.
Tímabilið reyndist stutt hjá Aidu Kardovic sem er með slitið krossband í hné. vísir/Guðmundur

Nýliðar FHL í Bestu deild kvenna í fótbolta hafa misst út einn af lykilmönnum sínum sem spilar ekki meira fyrir liðið á þessari leiktíð.

Frá því er greint á Fótbolti.net að Aida Kardovic, sem er 25 ára sókndjarfur miðjumaður frá Serbíu, hefði slitið krossband í hné og yrði því ekki meira með FHL í sumar.

Óhætt er að segja að um áfall sé að ræða fyrir FHL en Aida náði að leika fimm deildarleiki fyrir liðið og skoraði eitt mark.

Hún hafði fengið talsvert hrós í Bestu mörkunum þar sem Helena Ólafsdóttur lýsti henni sem skemmtikrafti og Mist Edvardsdóttir tók undir það:

„Hún er klárlega skemmtikraftur. Það er orð sem má nota yfir hana. Ef það má setja eitthvað út á hana þá er „less is more“ stundum. Hún er stundum að reyna aðeins of flókna hluti,“ sagði Mist og bætti við:

„Hún er að tapa boltanum á slæmum stöðum en virkilega skemmtilega leikmaður, mjög leikin og flink. Þetta er svona leikmaður sem fólk borgar sig inn á fótboltaleiki til að horfa á spila fótbolta.“

FHL hefur átt erfitt uppdráttar á sinni fyrstu leiktíð í Bestu deildinni og tapað fyrstu sex leikjum sínum, samtals með markatölunni 3-14. Liðið hefur þó fengið góðan stuðning í Fjarðabyggðarhöllinni og tekur þar á móti Þrótti á sunnudaginn klukkan 14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×