Fótbolti

Dómari í máli Maradona hættir vegna umdeildrar þátt­töku í heimildaþáttaröð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lögmaðurinn Julieta Makintach segist ekki hafa gert neitt rangt.
Lögmaðurinn Julieta Makintach segist ekki hafa gert neitt rangt. getty/Luciano Gonzalez

Argentínskur dómari í réttarhöldunum yfir heilbrigðisstarfsfólkinu sem annaðist Diego Maradona síðustu ævidaga hans hefur sagt sig frá málinu eftir að hafa verið gagnrýnd fyrir þátttöku sína í heimildamynd um það.

Sjö læknar og hjúkrunarfræðingar eru ákærðir fyrir að bera ábyrgð á dauða Maradona vegna vanrækslu í starfi. Argentínska fótboltagoðið lést af völdum hjartaáfalls í nóvember 2020, skömmu eftir að hafa gengist undir aðgerð vegna blóðtappa í heila. Maradona var sextugur þegar hann lést.

Julieta Makintach var einn þriggja dómara í málinu en hefur nú sagt sig frá því eftir að saksóknarinn Patricio Ferrari sakaði hana um að haga sér eins og leikkona. 

Réttarhöldin yfir heilbrigðisstarfsfólkinu hófust 11. mars en hlé hefur verið á þeim og óvissa ríkir um framhaldið eftir að Makintach sagði sig frá málinu í kjölfar gagnrýni á þátttöku hennar í heimildaþáttaröð um málið. Hún hafnar því að hafa leyft myndatökur frá réttarhöldunum en þær eru óheimilaðar.

Þegar stikla fyrir heimildaþáttaröðina var sýnd í réttarsal öskraði verjandi heilbrigðisstarfsfólksins á Makinatch og dóttir Maradonas, Gianinna, og fyrrverandi kærasta hans, Veronica Ojeda, felldu tár.

Lögmaður Odejas sagði að eftir þessa uppákomu væri heppilegast að byrja aftur frá grunni. Fljótlega verður tekin ákvörðun hvort réttarhöldin haldi áfram með nýjum dómara eða hvort ný réttarhöld fari fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×