Fótbolti

Orðnar vanar hitanum án loft­kælingar en fannst rigningin góð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Guðný Árnadóttir bjó lengi vel í Mílanó og finnst hitinn frábær.
Guðný Árnadóttir bjó lengi vel í Mílanó og finnst hitinn frábær. vísir / anton brink

Skipst hefur á sólskini og skúrum í Sviss, þangað sem íslenska kvennalandsliðið er mætt til leiks á Evrópumótið. Stelpurnar okkar leyfa háum hita ekki að hafa áhrif en tóku rigningu gærdagsins fagnandi þar sem það er engin loftkæling á hóteli liðsins.

Stelpurnar okkar halda til í fallegu umhverfi við Thun vatnið, þar sem allt er til alls í afþreyingu. Blíðskaparveður var uppi við þangað til skyndilega í gær, þegar fór að hellirigna.

Umhverfið er hið glæsilegasta hjá íslenska landsliðinu.vísir / anton brink

Von er hins vegar á þrjátíu stiga hita og glampandi sól á morgun þegar Ísland mætir Finnlandi í fyrsta leik, klukkan fjögur að íslenskum tíma.

„Ég bjó á Ítalíu í þrjú og hálft ár, er ágætlega vön þessum hita og finnst hann bara æðislegur“ sagði Guðný Árnadóttir, varnarmaður íslenska landsliðsins sem lék með AC Milan áður en hún fór til sænska félagsins Kristianstad í fyrra.

„Það var fínt að fara til Serbíu fyrst og venjast hitanum svolítið. Þannig að við erum orðnar vanar núna“ sagði landsliðskonan Amanda Andradóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir tók undir.

„Það var alvöru hiti og ennþá meiri raka þar, þannig að við erum bara vel stemmdar. Það spila bæði lið í sömu aðstæðum þannig að við getum ekki kvartað“ sagði Karólína.

Loftkælingarlaust hótel

Engin loftkæling er á hótelinu í Gunten, smábæ við Thun vatnið, þar sem stelpurnar okkar gista.

„Það eru alls konar leiðir sem við erum að nota til að ná í einhvern kulda. Svo er veðrið ekkert spes núna þannig að við fögnum því“ sagði Karólína Lea um lífið án loftkælingar.

Fjallað var um veður og vinda við Thun vatnið í Sviss í Sportpakka Sýnar í gærkvöldi. Innslagið má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×