Viðskipti innlent

Raf­bíla­sala tekur við sér en nær enn ekki fyrri hæðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Þáverandi ríkisstjórn felldi niður ívilnanir til rafbílakaupa um áramótin 2023 til 2024. Nýskráningum þeirra fækkaði töluvert á milli ára í fyrra og hefur salan enn ekki náð fyrri hæðum.
Þáverandi ríkisstjórn felldi niður ívilnanir til rafbílakaupa um áramótin 2023 til 2024. Nýskráningum þeirra fækkaði töluvert á milli ára í fyrra og hefur salan enn ekki náð fyrri hæðum. Vísir/Vilhelm

Nýskráning rafbíla jókst á fyrri helmingi þessa árs eftir mikinn samdrátt vegna niðurfellingar ívilnana í fyrra. Hlutdeild þeirra í nýskráningum er engu að síður ennþá minni en hún var þegar hún var mest árið 2023.

Fjölgun rafmagnsbíla er stór hluti af af þeirri tæplega fjórðungs aukningu í nýskráningum fólksbíla sem varð á fyrstu sex mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra. Rafbílarnir voru 2.283 á fyrri helmingi ársins, 140 prósent fleiri en á sama tíma í fyrra.

Hlutdeild rafbíla í nýskráningum á tímabilinu var 29 prósent. Þannig hafa þeir enn ekki borið barr sitt eftir að fyrri ríkisstjórn ákvað að fella niður ívilnanir til rafbílakaupa um áramótin 2023-24 og taka þess í stað upp beina styrki. Fyrir breytingarnar var hlutdeild rafbíla í nýskráningum 38 prósent á fyrri helmingi 2023.

Nýskráðir bílar eftir orkugjöfum á fyrri helmingi árs frá 2019 til 2025.Bílgreinasamband Íslands

Bensín- og dísilbílar eru enn á hægri útleið. Hlutdeild þeirra nam samtals 24 prósentum í nýskráningum á fyrri helmingi ársins. Tvinnbílar voru með fjórðungshlutdeild og tengiltvinnbílar 22 prósent.

Bílaleigur halda aftur af orkuskiptunum

Þegar aðeins er litið til nýskráninga einstaklinga á bílum ganga orkuskiptin í samgöngum töluvert hraðar. Þeim fjölgaði um 52,5 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins og sextíu prósent voru rafbílar. Markaðshlutdeild rafmagns- og tengitvinnbíla nam meira en áttatíu prósentum af nýskráningunum.

Hlutfall orkugjafa nýskráðra bíl einstaklinga á fyrri helmingi áranna 2019 til 2025.Bílgreinasamband Íslands

Fyrirtæki önnur en bílaleigur nýskráðu einnig aðallega rafbíla, alls 57 prósent. Rúmur fimmtungur fyrirtækjabílanna var tengiltvinnbílar.

Bílaleigur skráðu sextíu prósent allra nýskráðra bíla á fyrri helmingi ársins. Þeir skráðu aðallega tvinnbíla en þar á eftir komu tengiltvinnbílar og dísilbílar. Aðeins 7,5 prósent bílanna sem bílaleigur nýskráðu voru hreinir rafbílar, alls 348 stykki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×