Fótbolti

Biðjast af­sökunar á kynningarmyndbandi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Forráðamenn Newcastle hafa beðið stuðningsmenn afsökunar á kynningarmyndandi fyrir nýjan þriðja búning liðsins.
Forráðamenn Newcastle hafa beðið stuðningsmenn afsökunar á kynningarmyndandi fyrir nýjan þriðja búning liðsins. Michael Driver/MI News/NurPhoto via Getty Images

Forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle hafa sent frá sér afsökunarbeiðni vegna myndbands sem notað var til að kynna þriðja búning liðsins fyrir komandi tímabil.

Í myndbandinu, sem nú hefur verið eytt, mátti sjá söngvarann og Newcastle-stuðningsmanninn Sam Fender veifa fána sem líktist fána sólarupprisunnar. 

Fáni sólarupprisunnar var notaður af japönsku hermönnum í seinni heimstyrjöldinni. Fáninn er umdeildur í mörgum Asíulöndum, sérstaklega Suður-Kóreu og Kína þar sem hann er tengdur við japanska hernaðarstefnu og nýlendutímann á 20. öld. Þá hafa sumir í Suður-Kóreu líkt fánanum við hakakross nasista.

Myndbandinu hefur hins vegar, eins og áður hefur komið fram, verið eytt og ný og breytt útgáfa gefin út.

„Viðbrögðin við nýja þriðja búningnum okkar frá Adidas hafa verið frábær, en í kynningarmyndbandinu var atriði sem gæti hafa móðgað einhverja,“ sagði í tilkynningu frá Newcastle.

„Við biðjumst afsökunar á þessu. Við eru búin að eyða atriðinu út svo sem flestir geti notið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×