Erlent

Tveir ferða­menn létust í fílaárás í Sambíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fílamömmur passa afar vel upp á ungana sína.
Fílamömmur passa afar vel upp á ungana sína. Getty

Ferðamenn frá Bretlandi og Nýja-Sjálandi biðu bana eftir að hafa orðið fyrir árás fíls í safarí-ferð í Sambíu. 

Um var að ræða tvær konur, Easton Taylor, 68 ára frá Bretlandi, og Alison Taylor, 67 ára frá Nýja-Sjálandi, en það var móðir með kálf sem réðist á þær og hafði þær undir með þeim afleiðingum að þær létust.

Harmleikurinn átti sér stað í South Luangwa-þjóðgarðinum og að sögn lögreglustjórans á svæðinu reyndu þjóðgarðsverðir að stöðva árásina með því að skjóta af byssum en án árangurs.

Báðar konurnar létust á vettvangi.

Þær tilheyrðu stærri hópi sem var að ganga á milli tveggja búða þegar fíllinn réðist að þeim. Kvenfílar eru afar passasamir upp á kálfana sína og yfirvöld hafa varað ferðamenn við að fara nálægt þeim.

Tveir ferðamenn létust í fílaárásum í Sambíu í fyrra. Í báðum tilvikum var um að ræða eldri einstaklinga sem voru að ferðast um í bifreið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×