Tónlist

Quarashi á Lopa­peysunni: „Við erum synir Akra­ness“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Allir meðlimir Quarashi komnir saman á ný í tilefni 20 ára afmælis.
Allir meðlimir Quarashi komnir saman á ný í tilefni 20 ára afmælis. Vísir/Sveinn Speight

Steinar Orri Fjeldsted, einn meðlima rappsveitarinnar Quarashi, segir ekkert annað hafa komið til greina en að sveitin sameinaðist eftir áratugarhlé þegar boð barst frá Lopapeysunni á Akranesi. Allir meðlimir sveitarinnar eiga þangað rætur að rekja og lofar hann miklu stuði í kvöld.

Quarashi var stofnuð um miðjan tíunda áratug síðustu aldar og var starfrækt í átta ár. Árið 2004 lagði sveitin upp laupana en hún naut gríðarlegra vinsælda bæði hér á landi og erlendis. Sveitin kom síðast saman fyrir níu árum og kemur fram í kvöld á ballinu Lopapeysunni, sem fer fram í tilefni írskra daga á Akranesi í kvöld.

„Við fengum tilboð inn á borð hjá okkur og okkur þótti vel við hæfi að koma aftur saman á Lopapeysunni á Akranesi, þar sem við erum nú allir ættaðir frá Akranesi. Ömmur okkar og afar eru þaðan þannig að við tengjumst allir Akranesi. Við erum synir Akraness,“ segir Steinar. 

„Okkur fannst gaman að koma saman þar. Við erum í miklum gír og hlakkar til.“

„Best of“ sprengja

Mikið er um að vera í bænum eins og áður segir og á Steinar von á miklu stuði á ballinu í kvöld.

„Við tökum alla slagarana, þetta verður best of sprengja í andlitið á fólki,“ segir hann.

„Við erum ótrúlega peppaðir og hlakkar til að koma þarna fram. Mikil stemning í okkur og við lofum góðu fjöri.“

Hvernig er það að spila saman eftir allan þennan tíma, er það alveg eins eða er kominn nýr taktur í ykkur?

„Við æfum alla vega fyrr á daginn. Það er bara geggjuð stemning og eins og við höfum verið að gera þetta í gær. Það er eins og maður hafi ekki tekið neina pásu,“ segir Steinar. 

Hvað kemur til að þið komið aftur saman núna? 

„Eins og ég segi þá fáum við þetta tilboð og okkur fannst sérstakt því Akranes á sérstakan sess í hjörtum okkar. Okkur fannst gaman að koma saman þar. Svo voru menn bara á réttum stað á réttum tíma, allir til taks,“ segir Steinar. 

Hann segir óákveðið hvort sveitin komi eitthvað aftur saman í náinni framtíð en von sé á góðu „giggi“ í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.