Lífið

„Það segir eitt­hvað að þetta sé fjór­tánda sumarið“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Strandarkirkja í Selvogi var reist árið 1888.
Strandarkirkja í Selvogi var reist árið 1888. Vísir/Magnús Hlynur

Tónlistarhátíðin Englar og menn hefst í Strandarkirkju í Selvogi í dag. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar segir hátíðina einstaka, og engan sem mætir verða svikinn. 

Þetta er fjórtánda starfsár hátíðarinnar og verða tónleikar alla sunnudaga júlímánaðar klukkan tvö. Tónleikar dagsins heita Vorgyðjan kemur og það eru engir aukvisar sem þenja þar raddböndin, að sögn Bjargar Þórhallsdóttur, listræns stjórnanda hátíðarinnar.

„Við byrjum með miklum stæl því hér verða Kristinn Sigmundsson og sonur hans Jóhann Kristinsson. Með þeim verður Helga Bryndís Magnúsdóttir, þau ætla að ríða á vaðið. Það er yfirnáttúrulegur heiður að fá stórsöngvarann, það er bara Strandarkirkjan og Metropolitan,“ segir Björg, og á þar við að Kristinn hefur meðal annars stigið á svið í Metropolitan-óperunni í New York.

Jóhann Kristinsson, Helga Bryndís Magnúsdóttir og Kristinn Sigmundsson verða með fyrstu tónleika hátíðarinnar.Englar og menn

Falleg tónlist í fallegri kirkju

Hún segir það einstakt að syngja í Strandarkirkju.

„Fólki þykir svo gott að koma á þennan stað. Þykir vænt að hlýða á fallega tónlist og fá tilefni til að koma og heimsækja kirkjuna. Vera hér og upplifa þá sérstöku stemningu sem hér er. Það segir eitthvað að þetta sé fjórtánda sumarið,“ segir Björg. 

Einstakt að koma

Margir af þekktustu tónlistarmönnum landsins hafa tekið þátt í hátíðinni í gegnum árin. Það verði enginn svikinn af því að mæta á tónleikana.

„Ég get alveg lofað því. Þó ég segi sjálf frá. Það er einstakt að koma, og einstakt tækifæri að fá að hlusta á þá feðga syngja saman,“ segir Björg. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.