Íslenski boltinn

Safna stuðningsfólki í fría rútu með fljótandi veigar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framarar eru tveimur sætum og þremur stigum ofar en Vestri í Bestu deildinni en Djúpmenn eru á heimavelli.
Framarar eru tveimur sætum og þremur stigum ofar en Vestri í Bestu deildinni en Djúpmenn eru á heimavelli. @ghinfocus

Risaleikur fer fram á Ísafirði á laugardaginn kemur þegar Vestri og Fram spila um sæti í bikarúrslitaleiknum í ár.

Valsmenn eru komnir í úrslitaleik Mjólkurbikarsins eftir sigur á Stjörnumönnum í hinum undanúrslitaleiknum.

Hinn undanúrslitaleikurinn fer fram á Kerecisvellinum á Ísafirði og verður flautaður í gang klukkan 14.00 á laugardaginn.

Það má búast við mjög góðri mætingu hjá heimamönnum enda örugglega stærsti heimaleikurinn í sögu félagsins. Vestraliðið hefur komið mjög á óvart í Bestu deildinni í sumar en Fram hafði betur í fyrri deildarleik liðanna, 1-0, en hann var spilaður í Reykjavík. 

Vestri hefur aldrei komist í bikarúrslitaleik og Framarar voru þar síðast árið 2013 þegar þeir urðu bikarmeistarar undir stjórn Ríkharðs Daðasonar. Framarar hafa heldur ekki komist í undanúrslitin á þessum tólf árum sem eru liðin en Vestramenn voru þar fyrir fjórum árum en þurftu þá að spila heimaleik sinn á KR-vellinum vegna slæms ástands vallarins á Ísafirði. Vestri tapaði 3-0 fyrir Víkingum.

Framarar safna nú stuðningsfólki á pallana á Ísafirði. Á miðlum knattspyrnudeildar er meðal annars boðið upp á fría rútu með fljótandi veigar.

Menn þurfa reyndar að vakna mjög snemma því leikurinn er bara rétt eftir hádegi.

Rútan mun leggja af stað klukkan 6.00 um morguninn frá Lambhagavelli og heimferðin er síðan strax eftir leik. Þetta gæti því orðið mjög langur dagur en skemmtilegur takist Fram að tryggja sér sæti í bikarúrslitaleiknum.

Ferðalagið mun örugglega taka rúma fimm klukkutíma í hvora átt en meira en fjögur hundruð kílómetrar eru á milli heimavalla félaganna tveggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×