Erlent

Metalli­ca kom Tomor­rowland til bjargar eftir brunann

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sviðið brann til kaldra kola.
Sviðið brann til kaldra kola. Skjáskot/X

Raftónlistarhátíðin Tomorrowland hófst í dag í bænum Boom í Belgíu. Einungis tveir dagar eru síðan aðalsvið hátíðarinnar varð eldi að bráð. Orsök brunans eru enn til rannsóknar.

Engan sakaði í brunanum en sviðið brann nánast til kaldra kola. Engin leið var að reisa jafn mikilfenglegt svið og það sem brann, en hátíðin er þekkt fyrir framandi sviðshönnun. Hver hönnun er í allt að tvö ár í vinnslu og fjórar vikur tekur að setja sviðin upp. 

Nokkur af sviðum síðustu ára.Tomorrowland

Aðalsviðið verður á sama stað og upphaflega var planað, en í stað stórfenglegs listaverks samanstendur sviðið af palli, LED-skjáum, hátölurum og ljósabúnaði. Aðstandendur hátíðarinnar hafa unnið hörðum höndum að því að koma þessu öllu saman síðastliðna tvo sólarhringa, og fengu þeir meðal annars óvænta aðstoð frá rokkhljómsveitinni Metallica. 

Hljómsveitin var með hluta sviðs síns frá Evróputúr hennar í geymslu í Austurríki. Meðlimir hljómsveitarinnar lánuðu hátíðinni þá hluti sem vantaði og hægt var að hefja hátíðina. Á bakvið nýja sviðið standa svo brunarústirnar frá því á miðvikudag. 

Sviðið var gjöreyðilagt eftir brunann.AP/Omar Havana

Um er að ræða eina stærstu tónlistarhátíð heims og búist er við að um fjögur hundruð þúsund gestir sæki hana næstu tvær helgar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×