Erlent

Danskri sjón­varps­stöð barst sprengjuhótun

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hótunin barst skrifstofum TV2 í Óðinsvéum.
Hótunin barst skrifstofum TV2 í Óðinsvéum. Kåre Thor Olsen

Dönsku sjónvarpsstöðinni TV2 barst sprengjuhótun á skrifstofur þeirra í Óðinsvéum. Fjónska lögreglan rýmdi skrifstofurnar.

Samkvæmt umfjöllun danska ríkisútvarpsins barst sprengjuhótunin í tölvupósti um tíuleytið að staðartíma. Þeir náðu í upplýsingafulltrúa stöðvarinnar skömmu eftir að byggingin hafði verið rýmd.

„Við erum fyrir utan. Búið er að rýma Kvægtorvet. Við erum með nokkra sprengjuleitarhunda hérna úti sem verða sendir inn að sjá hvort þeir finni eitthvað,“ hefur danska ríkisútvarpið eftir Mads Boel upplýsingafulltrúa en skrifstofur TV2 í Óðinsvéum eru við hið svokallaða Kvægtorv í gamla kjötiðnaðarhverfi borgarinnar.

Lögreglan á Fjóni hefur ekki tjáð sig um málið umfram það að staðfesta sprengjuhótunina. Starfsfólki barst smáskilaboð um tíuleytið frá lögreglunni þar sem þeim var skipað að yfirgefa bygginguna vegna sprengjuhættu.

Á skrifstofum TV2 í Óðinsvéum starfa 780 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×