Fótbolti

Ísak aftur með frá­bæra inn­komu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson hlýtur að fá tækifæri í byrjunarliðinu i næsta leik.
Ísak Snær Þorvaldsson hlýtur að fá tækifæri í byrjunarliðinu i næsta leik. vísir

Ísak Snær Þorvaldsson er að byrja vel með Lyngby í danska fótboltanum en hann kom til liðsins á dögunum á láni frá norska félaginu Rosenborg.

Ísak hefur byrjað tvo fyrstu leikina á bekknum en komið inn á sem varamaður og skorað í þeim báðum.

Ísak kom inn á sem varamaður í hálfleik í kvöld þegar Lyngby gerði 1-1 jafntefli á heimavelli á móti B 93.

B 93 var 1-0 yfir í hálfleik eftir mark Fisnik Isaki á 32. mínútu.

Það var tími til að kalla á íslenska framherjann og hann svaraði kallinu. Ísak jafnaði metin með vinstri fótar skoti á 72. mínútu.

Hvorki honum né liðsfélögunum tókst að tryggja Lyngby sigur og uppskeran er því fjögur stig af sex mögulegum eftir fyrstu tvær umferðirnar.

Ísak er búinn að skora tvö mörk á 74 spiluðum mínútum og hlýtur bara að fá tækifæri í byrjunarliðnu í næsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×