Fótbolti

„Ég klikka ekki á tveimur vítaspyrnum í röð“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Chloe Kelly skoraði úr síðustu spyrnu Englendinga og tryggði liðinu Evrópumeistaratitilinn.
Chloe Kelly skoraði úr síðustu spyrnu Englendinga og tryggði liðinu Evrópumeistaratitilinn. EPA/TIL BUERGY

„Ég er svo stolt af þessu liði. Svo þakklát fyrir að fá að bera þetta merki. Svo þakklát fyrir að vera Englendingur,“ sagði Chloe Kelly eftir að Englendingar tryggðu sér sinn annan Evrópumeistaratitil í röð í kvöld. 

Englendingar mættu ríkjandi heimsmeisturum Spánar í úrslitum í kvöld og bauð leikurinn upp á mikla skemmtun.

Chloe Kelly kom inn af varamannabekknum í fyrri hálfleik fyrir meidda Lauren James og lagði upp jöfnunarmark Englands áður en hún skoraði úr síðustu vítaspyrnu mótsins og tryggði enska liðinu titilinn.

„Ég hélt kúlinu og var róleg. Ég vissi að ég myndi skora. Ég klikka ekki á tveimur vítaspyrnum í röð,“ bætti Kelly við, en hún misnotaði vítaspyrnu í undanúrslitum áður en hún skoraði úr frákastinu.

Hún nýtti einnig tækifærið og hrósaði þjálfarateyminu fyrir vel unnin störf.

„Þetta er ótrúlegt. Allt teymið á bakvið liðið og Sarina Wiegman - hún gerði það aftur! Ótrúlegt.“

Þá dró hún ekkert úr því að framundan væri mikil gleði hjá enska liðinu og hvatti landa sína til að fagna með þeim.

„Þetta verður klikkað. Ég vona að allir á Englandi fari út til að fagna með okkur og sýni þessum stelpum ást, því þær eiga það svo sannarlega skilið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×