Fótbolti

Sjáðu Messi leggja upp sigur­markið og öskra síðan á mót­herjana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcelo Weigandt þakkar Lionel Messi fyrir stoðsendinguna.
Marcelo Weigandt þakkar Lionel Messi fyrir stoðsendinguna. Getty/Megan Briggs

Lionel Messi kom aftur inn í lið Inter Miami eftir eins leiks bann og var maðurinn á bak við sigur liðsins í bandaríska deildabikarnum í nótt.

Inter Miami vann 2-1 sigur á Atlas í fyrstu umferð deildabikarsins. Messi skoraði ekki sjálfur en lagði upp bæði mörkin.

Marcelo Weigandt skoraði sigurmark Inter Miami á sjöttu mínútu í uppbótatíma en Messi bjó til markið og færði honum boltann á silfurfati fyrir framan opnu marki.

Leikmenn fögnuðu markinu gríðarlega með Messi fremstan í flokki. Þeir þurftu reyndar að bíða aðeins eftir staðfestingu frá myndbandsdómurum en þegar hún kom var fagnað enn meira.

Það var líka skap í Messi sem öskraði á mótherjana eftir að markið var staðfest. Hann var fúll með að vera dæmdur í leikbann (fyrir að skrópa í Stjörnuleikinn) og ætlaði sér að klára þennan fyrsta leik eftir bannið.

Telasco Segovia hafði komið Inter í 1-0 á 58. mínútu eftir aðra stoðsendingu frá Messi en Rivaldo Lozano jafnaði metin tíu mínútum fyrir leikslok.

Hér fyrir neðan má sjá sigurstoðsendingu Messi og skapið í honum á eftir. Enn neðar er síðan fyrra markið sem Messi lagði upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×