Handbolti

Ágúst Elí leysir af Landin hjá besta liði landsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson fagnar sigri með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu 2022.
Ágúst Elí Björgvinsson fagnar sigri með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu 2022. Getty/Nikola Krstic

Íslenski handboltamarkvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson sinnir nú sérstöku útkalli hjá besta handboltaliði Danmerkur.

Aalborg Håndbold hefur unnið danska meistaratitilinn undanfarin tvö ár og alls fimm sinnum frá árinu 2019.

Danska goðsögnin Niklas Landin stendur í marki liðsins en þurfti að fara í aðgerð vegna meiðsla á hné.

Landin verður vegna þessa frá í sex til átta vikur eins og kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Ágúst Elí leysir af Landin á þessum tíma en Álaborgarmenn fá hann á láni frá Ribe-Esbjerg.

Í tilkynningunni segist Landin vera pirraður yfir þessu en hann þurfti að láta laga hjá sér liðþófann.

„Ég trúi því og er ánægður með að ég verð ekki lengi frá. Ég vonast til að geta komist aftur inn á völlinn sem fyrst,“ sagði Niklas Landin í tilkynningu Álaborgarliðsins.

Ágúst er þrítugur og þekkir vel dönsku deildina. Hann hefur spilað þar síðan 2020, fyrst með KIF Kolding og svo með Ribe-Esbjerg frá 2022. Hann fór fyrst út í atvinnumennsku árið 2018 eftir að hafa spilað áður með FH.

Ágúst hefur síðan verið í kringum íslenska A-landsliðið síðan hann lék sinn fyrsta landsleik fyrir átta árum síðan. Hann hefur spilað 53 A-landsleiki.

Það er samt stórt skarð að fylla að leysa af markvörð eins og hinn frábæra Landin.

Hinn 36 ára gamli Niklas Landin er einn besti markvörður allra tíma. Hann vann á sínum tíma sex gullverðlaun með danska landsliðinu á stórmótum þar af þrjá heimsmeistaratitla.

Hann varð þrisvar þýskur meistari með Kel og hefur orðið þrisvar danskur meistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×