Fótbolti

Daníel Tristan lagði upp mark en það var ekki nóg gegn toppliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daníel Tristan Guðjohnsen lét til sína taka eftir að hann kom inn á völlinn.
Daníel Tristan Guðjohnsen lét til sína taka eftir að hann kom inn á völlinn. @daniel.gudjohnsenn

Íslendingaliðið Malmö varð að sætta sig við tap á heimavelli í dag á móti toppliði sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, Mjällby.

Mjällby komst í 2-0 í leiknum og vann leikinn 3-1. Liðið er fyrir vikið komið með sjö stiga forskot á toppnum.

Þetta var fyrsta tap Malmö í sænsku deildinni í rúma tvo mánuði. Liðið er í fjórða sætinu, þrettán stigum á eftir toppliðinu og tveimur stigum frá þriðja sætinu.

Daníel Tristan Guðjohnsen kom inn á sem varamaður fyrir landa sinn Arnór Sigurðsson á 59. mínútu eða stuttu eftir að Mjällby komst tveimur mörkum yfir.

Daníel var búinn að leggja upp mark fyrir Kenan Busuladzic, annan varamann, aðeins ellefu mínútum síðar.

Busuladzic skoraði á 70. mínútu með vinstri fótar skoti úr miðjum vítateignum. Staðan þá 2-1 en Mjällby tryggði sér sigurinn með þriðja markinu í uppbótatíma.

Malmö var búið að vinna þrjá deildarleiki í röð og hafði ekki tapað í ellefu leikjum í öllum keppnum eða síðan 29. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×