Erlent

Hand­tekinn í tengslum við morðið við mosku í Örebro

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglu- og sjúkralið á vettvangi skotárásarinnar í Örebro föstudaginn 15. ágúst 2025.
Lögreglu- og sjúkralið á vettvangi skotárásarinnar í Örebro föstudaginn 15. ágúst 2025. AP/Filip Gronroos/TT

Lögreglan í Örebro í Svíþjóð handtók í nótt mann sem er grunaður um að hafa átt aðild að morði fyrir utan mosku í borginni á föstudag. Annað fórnarlamb skotárásarinnar liggur enn sært á sjúkrahúsi.

Morðinginn sjálfur gengur enn laus en sá sem var handtekinn í nótt er talinn vitorðsmaður hans. Hann verður yfirheyrður í dag, að sögn sænska ríkisútvarpsins SVT.

Tveir menn voru skotnir fyrir utan moskuna eftir föstudagsbænir. Lögreglan telur að árásin tengjast átökum skipulagðra glæpasamtaka í borginni.

Einn þeirra sem var skotinn lést af sárum sínum á sjúkrahúsi á föstudag. Hinn er enn alvarlega sár en ekki talinn í lífshættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×