Handbolti

Stjarnan er meistari meistaranna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gauti Gunnarsson nýtti skotin sín vel í kvöld og var markahæstur hjá Stjörnunni.
Gauti Gunnarsson nýtti skotin sín vel í kvöld og var markahæstur hjá Stjörnunni. @stjarnanhandbolti

Stjarnan fagnaði sigri í kvöld í Meistarakeppni HSÍ í karlaflokki eftir eins marks sigur á Íslands- og bikarmeisturum Fram.

Stjörnumenn unnu leikinn 29-28 en spilað var á heimavelli Íslandsmeistaranna í Úlfarsárdalnum.

Benedikt Marinó Herdísarson skoraði sigurmark Stjörnuliðsins á æsispennandi lokamínútum og Adam Thorstensen varði síðan lokaskotið frá Fram.

Liðin skiptust á því að ná forystunni í fyrri hálfleiknum en Framarar komust þó tveimur mörkum yfir um hann miðjan. Staðan var jöfn í hálfleik, 15-15.

Það var áfram jafnt á flestum tölum. Stjarnan náði reyndar tveggja marka forskoti en Fram jafnaði strax.

Garðbæingar voru þó farnir að gera sig líklega og voru aftur búnir að ná tveggja marka forskoti þegar seinni hálfleikurinn var hálfnaður.

Framarar jöfnuðu aftur og spennan hélst í leiknum allt til leiksloka.

Dánjal Ragnarsson skoraði sjö mörk í sínum fyrsta keppnisleik með Fram og Marel Baldvinsson var með fimm mörk. Eiður Rafn Valsson skoraði fjögur mörk.

Gauti Gunnarsson skoraði sex mörk fyrir Stjörnuna, Ísak Logi Einarsson var með fimm mörk og þeir Hans Jörgen Ólafsson og Barnabás Rea Rea skoruðu báðir fjögur mörk.

Hetjan Benedikt Marinó var þarna að skora sitt annað mark í leiknum en það skilaði sigri og bikar í Garðabæinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×