Viðskipti innlent

Hætt hjá Ís­lenskri erfða­greiningu eftir sjö ára starf

Kjartan Kjartansson skrifar
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar. Vísir

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir er hætt sem upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar eftir sjö ára starf. Skammt er frá því að Kári Stefánsson lét af störfum sem forstjóri fyrirtækisins sem hann stofnaði. Þóra Kristín segist fegin að snúa sér að öðru eftir breytingar sem hafi átt sér stað á vinnustaðnum.

Frá þessu greinir Þóra Kristín í færslu á Facebook-síðu sinni. Hún hafi unnið sinn síðasta vinnudag hjá fyrirtækinu fyrir helgi. Ekki náðist strax í Þóru Kristínu við vinnslu þessarar fréttar.

Íslenska erfðagreiningu segir hún hafa verið stolt íslenskra vísinda og lengst af það fyrirtæki sem skaraði fram úr í samfélagslegri ábyrgð.

„Þetta var góður vinnustaður til margra ára, þar á ég góða vini, en breytingar undanfarna mánuði hafa gert það að verkum að ég er fegin að snúa mér að öðru,“ skrifar hún.

Þóra Kristín var ráðin til Íslenskrar erfðagreiningar árið 2018. Hún hafði áður starfað sem blaðamaður, meðal annars á Ríkisútvarpinu, Stöð 2, Morgunblaðinu, Fréttatímanum og Smugunni. Þá var hún formaður Blaðamannafélags Íslands í eitt ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×