Íslenski boltinn

Enn einn Ís­lendingurinn til Kristianstad

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elísa Lana Sigurjónsdóttir í bikarúrslitaleik FH og Breiðabliks.
Elísa Lana Sigurjónsdóttir í bikarúrslitaleik FH og Breiðabliks. vísir/anton

Í gegnum tíðina hafa fjölmargar íslenskar fótboltakonur leikið með Kristianstad og nú hefur ein í viðbót bæst í hópinn.

Í samtali við Fótbolta.net staðfesti Guðni Eiríksson, annar þjálfara FH, að félagið hefði selt Elísu Lönu Sigurjónsdóttur til Kristianstad. Hún hefur leikið sinn síðasta leik fyrir FH, allavega í bili.

Elísa hefur verið í lykilhlutverki hjá FH í sumar. Liðið komst í úrslit Mjólkurbikarsins og er í 2. sæti Bestu deildarinnar.

Elísa, sem verður tvítug á sunnudaginn, hefur leikið átján leiki í deild og bikar í sumar og skorað sjö mörk. Elísa hefur leikið 26 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað sjö mörk.

Hjá Kristianstad hittir Elísa fyrir landsliðskonurnar og Hafnfirðingana Alexöndru Jóhannsdóttur og Guðnýju Árnadóttur. Katla Tryggvadóttir, jafnaldra Elísu, er nýfarin til Fiorentina á Ítalíu.

Kristianstad er í 5. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 26 stig eftir sextán umferðir. Næsti leikur liðsins er gegn Häcken á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×