Fótbolti

Messi skoraði tvö í síðasta lands­leiknum í Argentínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi með þremur sonum sínum fyrir leikinn í nótt.
Lionel Messi með þremur sonum sínum fyrir leikinn í nótt. EPA/ADAN GONZALEZ

Lionel Messi spilaði í nótt sinn síðasta keppnisleik fyrir argentínska landsliðið á heimavelli. Mikið var látið með þennan síðasta leik hans og Messi stóð heldur betur undir væntingum.

Messi skoraði nefnilega tvö mörk í 3-0 sigri á Venesúela í undankeppni HM. Hinn 38 ára gamli Messi er nú kominn með 114 mörk í 194 landsleikjum.

Tárin runnu hjá Messi fyrir leik þegar hann var hylltur þar sem hann stóð með þremur sonum sínum.

„Það eru svo miklar tilfinningar í gangi. Ég hef upplifað svo margt á þessum velli,“ sagði Messi en leikurinn fór fram á Estadio Monumental í Buenos Aires.

„Það fylgir því alltaf mikil ánægja að spila hér í Argentínu fyrir framan fólkið okkar. Ég er mjög ánægður með að geta endað þetta svona því mig dreymdi alltaf um það,“ sagði Messi.

Messir skoraði fyrra markið sitt á 39. mínútu eftir sendingu frá Julian Alvarez en það seinna kom á 80. mínútu eftir sendingu frá Thiago Almada.

Argentínska landsliðið er löngu búið að tryggja sig inn á HM en Messi er ekki búinn að ákveða hvort hann verði með á heimsmeistaramótinu næsta sumar.

„Ég er að reyna að láta mér líða vel og vera fyrst og fremst trúr sjálfum mér. Ef mér líður ekki vel þá nýt ég þess ekki að spila. Ef mér líður ekki vel þá vil ég ekki vera þarna. Við verðum bara að sjá til hvernig mér líður. Ég hef ekki tekið neina ákvörðum með HM,“ sagði Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×