Innlent

Á­kærðir fyrir hóp­nauðgun gegn ó­lög­ráða stúlku

Jón Þór Stefánsson skrifar
Héraðsdómur Reykjaness mun dæma í málinu.
Héraðsdómur Reykjaness mun dæma í málinu. Vísir/Vilhelm

Tveir menn hafa verið ákærðir fyrir að nauðga ólögráða stúlku og útbúa af því myndband. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness.

Meint atvik málsins munu hafa átt sér stað að nóttu til í ágústmánuði í fyrra. Fréttastofa hefur ákæru málsins undir höndum, en mörg atriði hennar hafa verið afmáð.

Mönnunum tveimur er gefið að sök að hafa nauðgað stúlkunni með því að notfæra sér ölvunarástand hennar þar sem hún hafi ekki getað spornað við verknaðinum vegna ölvunar og svefndrunga.

Í ákærunni segir að báðir þeirra hafi haft við hana samræði og annar þeirra einnig haft við hana önnur kynferðismök.

Þá eru mennirnir sagðir hafa í sama skipti útbúið myndskeið af kynmökunum án samþykkis og vitneskju stúlkunnar.

Annað foreldri stúlkunnar krefst þess fyrir hönd hennar að henni verði greiddar miskabætur, en í útgáfu ákærunnar sem fréttastofa hefur undir höndum kemur ekki fram hversu miklar bæturnar eiga að vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×