Körfubolti

Slóvenar saltvondir út í dómarana: „Hvað er hægt að segja?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luka Doncic lenti í villuvandræðum gegn Þýskalandi eins og nokkrir aðrir leikmenn Slóveníu.
Luka Doncic lenti í villuvandræðum gegn Þýskalandi eins og nokkrir aðrir leikmenn Slóveníu. getty/Matthias Stickel

Dómarar leiks Þýskalands og Slóveníu í átta liða úrslitum á EM í körfubolta karla verða eflaust ekki á jólakortalista slóvensku leikmannanna og þjálfaranna. Þeir voru vægast sagt ósáttir við störf dómaratríósins í kvöld.

Eftir að hafa leitt nánast allan leikinn misstu Slóvenar móðinn undir lokin gegn heimsmeisturum Þjóðverja og töpuðu, 99-91.

Ofurstjarna slóvenska liðsins, Luka Doncic, átti stórleik í kvöld. Hann skoraði 39 stig, tók tíu fráköst og gaf sjö stoðsendingar en lenti í villuvandræðum. Eftir að Doncic fékk sína fjórðu villu veifaði hann peningamerki að dómurum leiksins.

Samherji Doncic, Alen Omic, var vægast sagt ósáttur við meðferðina sem honum fannst Los Angeles Lakers-maðurinn fá í leiknum.

„Hvað er þetta? Besti leikmaður mótsins. Allir koma til að horfa á hann. Við getum ekki spilað körfubolta eins og þið. Þess vegna töpuðum við. Þeir skoruðu fjörutíu af níutíu stigum sínum á vítalínunni og nú getið þið talið,“ sagði Omic. Raunar skoruðu Þjóðverjar þrjátíu af 99 stigum sínum af vítalínunni. Þeir tóku 37 vítaskot í leiknum en Slóvenar 25. Þar af tók Doncic fimmtán víti.

„Við komum hingað til að berjast og erum með fjölskyldunni okkar. Við viljum vinna leikinn og þetta gerist. Hvað er hægt að segja? Hvað er hægt að segja? Ekkert að segja. Við spiluðum mjög vel. Við börðumst og ætluðum að fara alla leið og þegar andstæðingurinn tekur fjörutíu víti geturðu ekki unnið,“ bætti Omic við.

Slóvenía fékk 31 villu í leiknum í kvöld en Þýskaland 24. Doncic náði að klára leikinn án þess að fá sínu fimmtu villu en Omic og Aleksej Nikolic fengu báðir fimm villur.

Í undanúrslitunum mætir Þýskaland Finnlandi og Grikkland og Tyrkland eigast við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×