Körfubolti

Grikkir stál­heppnir að landa bronsinu

Sindri Sverrisson skrifar
Giannis Antetokounmpo æðir á finnsku vörnina sem var svo nálægt því að leggja hann og gríska liðið að velli.
Giannis Antetokounmpo æðir á finnsku vörnina sem var svo nálægt því að leggja hann og gríska liðið að velli. Getty/Esra Bilgin

Giannis Antetokounmpo og félagar í gríska landsliðinu voru stálheppnir að vinna bronsverðlaunin á EM í körfubolta í dag, þar sem þeir unnu Finna í leik sem varð allt í einu ótrúlega spennandi á lokakaflanum.

Grikkir höfðu yfirhöndina mestallan leikinn og voru komnir í 81-64 þegar aðeins fjórar og hálf mínúta voru eftir.

Þá tók við ótrúlegur kafli þar sem Finnum tókst með óhemju þrautseigju að éta upp nánast allt forskot Grikkjanna sem þó unnu á endanum, 92-89.

Munurinn fór niður í tvö stig þegar tuttugu sekúndur voru eftir og eftir að Grikkir nýttu eitt víti fengu Finnar tækifæri til að jafna metin. Brotið var á Elias Valtonen í þriggja stiga skoti en hann nýtti aðeins tvö af þremur vítum sínum. 

Mikael Jantunen náði hins vegar sóknarfrákasti eftir síðasta vítið en blakaði boltanum í hringinn. Hann braut svo á Antetokounmpo sem skoraði síðustu stig leiksins af vítalínunni.

Engu að síður hetjuleg endurkoma hjá Finnum með Lauri Markkanen í broddi fylkingar en hann skoraði 19 stig og tók 10 fráköst. Valtonen skoraði 18 stig og Olivier Nkamhoua 15. Grikkir treystu að sjálfsögðu á Antetokounmpo og hann endaði með heil 30 stig og 17 fráköst í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×