Erlent

Svarar til saka fyrir morð á „blóðuga sunnu­deginum“

Kjartan Kjartansson skrifar
Sygjendur bera kistu eins þeirra þrettán sem breskir hermenn skutu til bana í Derry á Norður-Írlandi á blóðuga sunnudeginum árið 1972.
Sygjendur bera kistu eins þeirra þrettán sem breskir hermenn skutu til bana í Derry á Norður-Írlandi á blóðuga sunnudeginum árið 1972. AP

Réttarhöld yfir breskum uppgjafarhermanni fyrir morð og tilraunir til manndráps í Londonderry/Derry á Norður-Írlandi á blóðuga sunnudeginum svonefnda hefjast í dag. Enginn hefur nokkru sinni verið dæmdur sekur um fjöldamorðið.

Breskir hermenn skutu þrettán óvopnaða óbreytta borgara til bana og særðu fimmtán til viðbótar í mótmælum í borginni Derry/Londonderry 30. janúar árið 1972. Dagurinn hefur verið nefndur „blóðugi sunnudagurinn“.

Sakborningurinn í málinu sem hefst í dag var fallhlífahermaður. Hann er sakaður um að hafa myrt tvo og reynt að drepa fimm til viðbótar. Maðurinn hefur ekki verið nafngreindur öðruvísi en sem „hermaður F“ og í dómsal verður hann á bak við tjöld til þess að vernda hann fyrir mögulegum hefndarverkum.

Fjölskyldur þeirra myrtu hafa þurft að bíða í meira en hálfa öld eftir réttlæti og ljóst er að flestar þeirra fá aldrei að upplifa það.

Bresk stjórnvöld sögðu upphaflega að hermennirnir hefðu skotið í sjálfsvörn á vopnaða menn sem réðust á þá. Þeir voru allir hreinsaðir af sök. Þegar atburðirnir voru rannsakaðir á ítarlegri hátt árið 2010 var niðurstaðan sú að hermennirnir hefðu skotið á óvopnað fólk sem var að flýja og að þeir hefðu svo logið um það áratugum saman.

Það tók svo sjö ár frá því að lögregla hóf rannsókn að gefa út ákæru. Þá var aðeins hermaður F ákærður en sextán aðrir sluppu við ákæru á þeim forsendum að ekki væru næg sönnunargögn fyrir hendi gegn þeim. Tveimur árum síðar felldi saksóknari ákæruna niður á þeim forsendum að hún þætti ekki líkleg til sakfellingar. Fjölskylda eins þeirra myrtu fékk þeirri niðurstöðu hnekkt.

Hermaðurinn hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×